Viðskipti innlent

Þrjú iðn­­fyrir­­­tæki sam­einast þvert á lands­hluta

Eiður Þór Árnason skrifar
Fyrirtækið hyggst starfrækja fjórar verksmiðjur.
Fyrirtækið hyggst starfrækja fjórar verksmiðjur. Samsett

Trésmiðjan Börkur, Gluggasmiðjan Selfossi og Glerverksmiðjan Samverk hafa sameinast og er áætlað að samanlögð velta hins nýja fyrirtækis verði um fjórir milljarðar króna fyrir árið 2023. Öll fyrirtækin rótgróin á íslenskum markaði og eru yfir 50 ára gömul.

Hið sameinaða fyrirtæki er með framleiðslu á Akureyri, Hellu og Selfossi og mun fjórða verksmiðjan bætast við í Reykjavík. Þá er starfrækt söluskrifstofa í Kópavogi.

Sameiningin átti sér stað 1. nóvember en í tilkynningu segir að sameinað fyrirtæki muni leggja áherslu á að framleiða umhverfisvæna glugga, hurðir og gler. Því verði innlend framleiðsla, þar sem notast er við endurnýjanlega orku, lykilinn að framtíðarsýn félagsins.

Leita að framkvæmdastjóra

Kristján Ragnar Ásgeirsson, fjármálastjóri hins ónefnda fyrirtækis, segir það mjög spennandi að þessi rótgrónu iðnfyrirtæki sameini nú krafta sína, reynslu og þekkingu. Félagið auglýsir nú eftir framkvæmdastjóra.

,,Þessi fyrirtæki eru mikilvæg í íslenskri iðnsögu og framleiða vörur sem eru sérstaklega þróaðar með íslenskum byggingaraðilum, fyrir innlendan markað. Nú þegar þessi sameining hefur orðið, mun styrkur sameinaðs fyrirtækis verða mikill og tryggir áframhaldandi framleiðslu og þróun á Íslandi.

Það eykur afhendingaröryggi og styttir afgreiðslutíma, ásamt því að kolefnisspor íslenskra bygginga verður minna með notkun endurnýjanlegrar orku við framleiðslu. Framleiðsla sem þessi er mjög orkufrek, má þar sérstaklega nefna herslu á gleri,” segir Kristján í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×