Viðskipti innlent

Fer frá HÍ til að taka við sem deildar­for­seti hjá HR

Eiður Þór Árnason skrifar
Jón Þór Sturluson, nýr forseti viðskiptadeildar HR.
Jón Þór Sturluson, nýr forseti viðskiptadeildar HR. Aðsend

Dr. Jón Þór Sturluson hefur verið ráðinn deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Hann starfaði síðast sem dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Jón Þór útskrifaðist með doktorsgráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics árið 2003 með áherslu á atvinnuvega- og orkuhagfræði. Áður lauk hann B.Sc. og M.Sc. prófi frá Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR en ásamt því að hafa starfað hjá HÍ hefur Jón Þór gegnt stöðu dósents við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2006, í hlutastarfi frá 2013, og stundað rannsóknir og kennslu á sviði fjármála og hagfræði. Einnig hefur hann veitt meistaranámi í fjármálum- og reikningshaldi forstöðu.

Var aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins

Frá 2013 til 2020 starfaði Jón Þór sem aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem bar ábyrgð á eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga, lífeyrissjóða og starfsemi á verðbréfamarkaði. Þar bar hann meðal annars ábyrgð á varúðareftirliti með bönkum, þjóðhagsvarúð og viðbúnaði við áföllum. Þá var hann meðlimur í kerfisáhættunefnd. Jón Þór var ritstjóri Tímarits um viðskipti- og efnahagsmál um tíma og frá 2004 til 2006 gegndi stöðu dósents við Háskólann á Bifröst og starfi forstöðumanns Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Á alþjóðlegum vettvangi hefur Jón Þór setið í stjórn Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA), verið áheyrnarfulltrúi í Evrópska kerfisáhætturáðinu (ESRB), fulltrúi í ráðgjafaráði Fjármálastöðugleikaráðsins fyrir Evrópu (FSB-RCG Europe) og þátttakandi í ýmsum norrænum nefndum á sviði fjármálaeftirlits og fjármálastöðugleika.

Haustið 2019 var hann í gestastöðu við fjármálastöðugleikastofnun Alþjóðagreiðslubankans (BIS). Að sögn HR hefur Jón Þór einnig tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi, einkum á sviði orkumála og fjármálastöðugleika.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×