Innherji

Alvotech að klára um 50 milljarða fjármögnun fyrir tvíhliða skráningu

Hörður Ægisson skrifar
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Alvotech

Íslenska líftæknifyrirtækið Alvotech er á lokametrunum með að tryggja sér samtals um 400 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 52 milljarða íslenskra króna, í nýtt hlutafé í tengslum við áformaða tvískráningu félagsins á markað í Bandaríkjunum og á Íslandi í byrjun næsta árs. Áætlað er að íslenskir fjárfestar muni þar af leggja félaginu til um 6 til 7 milljarða króna.

Verðmiðinn á Alvotech við skráningu á hlutabréfamarkað gæti reynst vera nálægt 400 milljörðum króna sem myndi gera það að næst verðmætasta félaginu í Kauphöllinni hér á landi á eftir Marel.

Stærstu hluti fjármagnsins, eða um 250 milljónir dala, kemur frá sérhæfðu yfirtökufélagi (e. SPAC) sem er í rekstri bandaríska vogunarsjóðsins Oaktree Capital, samkvæmt heimildum Innherja. Fjármögnun þess félags kláraðist undir lok síðasta mánaðar en samhliða hefur verið unnið að því að sækja til viðbótar um 150 milljónir dala, einkum frá erlendum stofnanafjárfestum, í gegnum lokað hlutafjárútboð, sem er stýrt af Oaktree. Væntingar eru um að því ljúki mögulega strax í næstu viku.

Í kjölfarið verður tilkynnt um samkomulag um öfugan samruna Alvotech við SPAC-félagið Oaktree Acquisition þar sem ætlunin er að skrá líftæknifyrirtækið, sem var stofnað af Róberti Wessman, á markað, annaðhvort bandarísku kauphöllina NASDAQ eða kauphöllina í New York (NYSE), og eins í Kauphöllina hér á landi. Samkvæmt áætlunum félagsins er gert ráð fyrir því að skráningin geti farið fram í febrúar eða mars á næsta ári.

Hinir nýju fjárfestar sem koma að Alvotech í gegnum SPAC-félagið eða hlutafjárútboðinu munu, að sögn þeirra sem þekkja vel til, eignast samanlagt 15 til 18 prósenta hlut í líftæknifyrirtækinu eftir samrunann á meðan núverandi eigendur munu fara með 82 til 85 prósenta eignarhlut. Þannig er áætlað að hlutur Aztiq Pharma, fjárfestingafélags Róberts, muni þynnast lítillega og verða um 36 til 39 prósent en eignarhlutur Alvogen, systurfélags Alvotech, verði á bilinu 31 til 33 prósent en í hluthafahópi þess eru fjárfestingasjóðirnir CVC Capital og Temasek. Aðrir eigendur Alvotech í dag eru meðal annars fjárfestingarsjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.

Sækja 50 milljónir dala frá íslenskum fjárfestum

Með þeim fjármunum sem Alvotech tryggir sér með samrunanum er ráðgert að félagið sé fullfjármagnað fram á árið 2023. Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknilyfja, þar á meðal hliðstæðu gigtarlyfsins Humira, sem fyrirtækið áætlar að geta farið með á Bandaríkjamarkað á fyrstu mánuðum þess árs. Lyfið, sem er söluhæsta lyf heims, selst vestanhafs fyrir um 18 milljarða dala á ári.

Um það bil 500 manns starfa nú hjá Alvotech á Íslandi.

Samkvæmt heimildum Innherja er lagt upp með að sækja samtals um 50 milljónir dala frá íslenskum fjárfestum í því hlutafjárútboði sem nú er unnið að. Sú vinna er í höndum Arion banka, Landsbankans og verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance. Erlendir ráðgjafar Alvotech, sem hafa umsjón með fjármögnunarferlinu og fyrirhugaðri skráningu á markað, eru hins vegar Morgan Stanley, Credit Suisse, Citi og Deutsche Bank. Áætlaður ráðgjafakostnaður Alvotech vegna skráningarferlisins er talinn vera samtals um 50 milljónir dala.

Verðmatið á Alvotech, samkvæmt því samkomulagi sem fyrirtækið hefur gert við Oaktree, er 2,7 milljarðar dala fyrir þá fjármögnun (e. pre-money) sem nú stendur yfir upp á samanlagt 400 milljónir dala. Það getur hins vegar tekið breytingum til lækkunar í fjármögnunarferlinu – þó ekki niður fyrir tvo milljarða dala – en á móti myndu þá núverandi hluthafar Alvotech eiga rétt á árangurstengdum greiðslum nái félagið tilteknum fjárhagslegum markmiðum eftir að það verður skráð á markað.

Horfið frá skráningu í Asíu

Innlendir fjárfestar, sem eru ekki hluti af stjórnendateymi lyfjafyrirtækisins, komu í fyrsta sinn inn í hluthafahóp Alvotech í mars á þessu ári, þegar félagið sótti sér um 100 milljónir dala í lokuðu hlutafjárútboði. Íslensku fjárfestarnir, sem voru meðal annars Stefnir, tryggingafélagið TM, Hvalur og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, lögðu Alvotech þá til um 2 milljarða króna sem tryggði þeim liðlega hálfs prósents eignarhlut í félaginu.

Upphaflega stóð til af hálfu stjórnenda Alvotech að skrá félagið á markað í Asíu, en horfið var frá því fyrr á árinu og þess í stað einblínt á Bandaríkjamarkað. Þá ákvörðun má einkum rekja til uppgangs sérhæfðra yfirtökufélaga vestanhafs en mörg þeirra líta til yfirtöku á líftæknifyrirtækjum.

Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað. Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hefðu gert með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm hliðstæða líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Samningurinn er sagður tryggja Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða króna á næstu árum.

Alvotech réðst fyrir skömmu í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni og verður það um 24 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum.

Frá stofnun Alvotech nemur heildarfjárfesting fyrirtækisins í uppbyggingu og þróunarstarfi í fjórum löndum um einum milljarði Bandaríkjadala, eða um 136 milljörðum króna. Fram hefur komið í máli stjórnenda félagsins að það stefni að því að velta Alvotech verði um 20 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2027. Liðlega 500 manns starfa nú hjá Alvotech á Íslandi. Alvotech réðst fyrir skömmu í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni og verður það um 24 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum.

Beðið eftir dómstólum vestanhafs

Stjórnendur Alvotech hafa væntingar um að líftæknihliðstæða lyfsins Humira fari í sölu til neytenda á næsta ári en Lyfjastofnun Evrópu gaf nýlega grænt ljós á að það fengi markaðsleyfi í álfunni.

Mikill meirihluti allrar sölu Humira fer hins vegar fram í Bandaríkjunum en þar hefur lyfjafyrirtækið Abbvie verið eitt um söluna. Alvotech var stefnt fyrr á þessu ári fyrir meint brot á 62 einkaleyfum tengdum lyfinu en fyrirtækið hefur samþykkt að hefja ekki sölu Humira vestanhafs fyrr en niðurstaða hefur fengist í málið fyrir dómstólum, sem áætlað er að verði í október á næsta ári. Búið er að fækka meintum einkaleyfabrotum Alvotech niður í tíu en á meðan beðið er eftir niðurstöðu dómstóla, eða að Alvotech og Abbvie komist að samkomulagi sín á milli, vinnur íslenska líftæknifyrirtækið að því að fá markaðsleyfi hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkja.

Í viðskiptaáætlunum Alvotech er ráðgert að sala á Humira lyfinu vestanhafs geti hafist í apríl árið 2023.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Áætla virði Alvotech 300 milljarða króna

Fjórðungur eigenda breytanlegra skuldabréfa lyfjafyrirtækisins Alvotech hafa nýtt sér rétt sinn til að breyta skuldabréfum upp á 13 milljarða króna í hlutafé. Gengi viðskiptana áætlar virði fyrirtækisins 300 milljarða króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×