Leikjavísir

Skyrim er tíu ára og fær enn eina útgáfuna

Samúel Karl Ólason skrifar
FD12RKyWUAAykH_
Bethesda

Hinn gífurlega vinsæli tölvuleikur The Elder Scrolls V: Skyrim kom út fyrir tíu árum í dag. Af því tilefni fær leikurinn enn eina útgáfuna og nú sérstaka afmælisútgáfu.

Bethesda, framleiðendur Skyrim, segja þessa útgáfu vera þá bestu hingað til. Sú yfirlýsing heldur þeim möguleika opnum að gefa leikinn út áfram. Síðan leikurinn kom fyrst út þann 11. nóvember 2011 hefur hann verið gefinn út margoft.

Árið 2013 kom út Skyrim – Legendary Edition. Árið 2016 kom út Skyrim: Special Edition og árið 2017 var leikurinn gefinn út fyrir Nintendo Switch. Ofan á það hefur hann einnig verið gefinn út fyrir sýndarveruleika.

Afmælisútgáfan er sum sé sjötta útgáfa Skyrim.

Þessi útgáfa inniheldur upprunalega leikinn og þrjá aukapakka hans. Einnig má þar finna allt efni sem framleitt var í Creation Club, nýjar breytingar (Vopn, brynjur og annað) og þar að auki er nú hægt að veiða fisk í Skyrim.

Bethesda gerði einnig minnst tvö ný verkefni sem snúa að fyrri leikjum seríunnar, Oblivion og Morrowind.

Meðal nýrra hluta sem finna má í afmælisútgáfunni.Bethesda

Creation Club er efnisveita sem Bethesda opnaði fyrir nokkrum árum með því markmiði að fá tekjur af efni sem svokallaðar „moddarar“ gera fyrir Skyrim. Á síðastliðnum áratug hafa fjölmargir „moddar“ verði gerðir fyrir Skyrim, sem bæta ýmsu við leikinn. Þessi nýjasta útgáfa gæti gert það að verkum að þessir moddar hætti að virka.

Bethesda tilkynnti fyrir nokkrum árum að verið væri að vinna að sjötta leiknum í Elder Scrolls seríunni. Síðan þá hefur ekkert heyrst um leikinn en gera má ráð fyrir því að hann komi ekki út fyrr en í fyrsta lagi árið 2024.

Bethesda

Leikurinn Starfield, sem Bethesda hefur unnið að síðan Fallout 4 kom út og hefur verið lýst sem „Skyrim í geimnum“, kemur út 11. nóvember 2022.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.