Spáir hagfræðideildin því jafnframt að verðbólga án húsnæðiskostnaðar verði 3,3% í nóvember. Helstu áhrifaþættir á verðbólguþróunina í mánuðinum eru taldir vera reiknuð húsaleiga, bensín og dísilolía og í þriðja lagi húsgögn og heimilisbúnaður. Allir þrír liðir vega til hækkunar verðlags.
Greint var frá því í gær að Greining Íslandsbanka spái því að ársverðbólga muni mælast 5,1% í nóvember. Telur bankinn að stýrivextir Seðlabankans verði líklega hækkaðir um 0,25 prósentur þann 17. nóvember næstkomandi og fari í 1,75%. Hagstofan birtir septembermælingu vísitölu neysluverðs fimmtudaginn 25. nóvember.
Hagfræðideild Landsbankans telur að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í desember, lækki um 0,2% í janúar og hækki síðan aftur um 0,7% í febrúar. Gangi spáin eftir mun verðbólgan verða 5% í febrúar en verðbólga án húsnæðis 3%. Til samanburðar gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir að veðbólga mælist 5,2% í febrúar.
Verðbólga án húsnæðis hefur gengið nokkuð hratt niður að undanförnu og mældist 3,0% í október en sló hæst í 4,7% í janúar.
Ný könnun Seðlabankans bendir til að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 4,6% á yfirstandandi ársfjórðungi. Þá komi hún til með að hjaðna á næsta ári og verða að meðaltali 4,4% á fyrsta fjórðungi næsta árs og 3,8% á öðrum fjórðungi. Vænta markaðsaðilar þess að verðbólga hjaðni áfram í kjölfarið og verði 3,3% að ári liðnu.
Fréttin hefur verið uppfærð.