Umfjöllun og viðtöl: HK - Selfoss 23-28 | Selfoss aftur á sigurbraut eftir þriggja leikja taphrinu

Andri Már Eggertsson skrifar
Selfoss vann góðan sigur í kvöld.
Selfoss vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss komst aftur á sigurbraut eftir þriggja leikja taphrinu. Þrátt fyrir að spila ekki sinn besta leik var sigur Selfoss aldrei í hættu. Lokatölur 23-28.

Olís deild karla fór af stað eftir landsleikjahlé. Fyrsti leikur 7. umferðar fór fram í Kórnum þar sem HK tók á móti Selfossi.

HK var lengi að finna taktinn sóknarlega. HK skoraði aðeins þrjú mörk á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Gestirnir voru þó ekki á blússandi siglingu heldur voru þeir líka höktandi. Einar Sverrisson skoraði þrjú fyrstu mörk Selfoss. Staðna eftir fimmtán mínútur 3-5.

Á 20. mínútu fékk Hjörtur Ingi Halldórsson, leikmaður HK, beint rautt spjald. Í þann mund sem Selfoss var að tapa boltanum fór Hjörtur í andlitið á Ísaki Gústafssyni og niðurstaðna beint rautt spjald. Ísaki var heitt í hamsi og fékk hann tveggja mínútna brottvísun í næstu sókn HK.

Eftir rauðaspjald Hjartar skoruðu gestirnir þrjú mörk í röð. Selfoss hélt áfram að spila agaðan varnarleik sem setti nýliða HK í mikil vandræði. HK skoraði aðeins níu mörk í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir afleiddan sóknarleik var Selfoss aðeins þremur mörkum yfir í hálfleik 9-12. 

Það var ljóst snemma í síðari hálfleik að Selfyssingar myndu vinna leikinn. Það kom betri taktur í sóknarleik Selfoss í seinni hálfleik og skoruðu gestirnir fullt af auðveldum mörkum vegna áhugaleysis HK á verkefninu. 

Guðmundur Hólmar Helgason er að stíga sín fyrstu skref eftir að hafa slitið hásin í byrjun árs. Guðmundur Hólmar tók þátt í sóknarleik liðsins í leik kvöldsins og skoraði tvö mörk úr jafn mörgum skotum. 

Selfoss vann leikinn á endanum með fimm mörkum 23-28. 

Af hverju vann Selfoss?

Selfoss var langt frá því að spila sinn besta leik en þessi frammistaða dugði gegn nýliðum HK. Varnarleikur Selfyssinga sá að mörgu leyti um leikinn. HK skoraði aðeins 23 mörk sem mun aldrei duga til sigurs. 

Hverjir stóðu upp úr?

Richard Sæþór Sigurðsson átti góðan leik og endaði sem markahæsti leikmaður vallarins. Richard skoraði sjö mörk og voru nokkur af dýarari gerðinni.

Hergeir Grímsson átti erfitt uppdráttar í byrjun leiks en vann sig betur inn í leikinn og átti góðan seinni hálfleik. Hergeir skoraði sex mörk og var duglegur að skapa færi fyrir liðsfélaga sína. 

Hvað gekk illa? 

Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, sagði eftir leik að þetta væri lélegasti leikur liðsins á tímabilinu. Það er hægt að taka undir orð hans. Leikmenn HK voru áhugalausir og óskynsamir gegnum gangandi út allan leikinn. 

HK skoraði aðeins 23 mörk sem er það minnsta sem liðið hefur skorað á tímabilinu. 

Hvað gerist næst?

Selfoss fær Víking Reykjavík í heimsókn næsta sunnudag klukkan 19:30 í Set-höllinni.

HK fer í Hertz-höllina og mætir Gróttu næsta sunnudag klukkan 18:00.

Sebastian: Leiðinlegasti leikur sem ég hef tekið þátt í 

Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, var afar svekktur með úrslit kvöldsinsVísir/Vilhelm

Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, var afar ósáttur með spilamennsku liðsins eftir leik.

„Þetta var okkar langslakasta frammistaða í vetur. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég er virkilega ósáttur með mitt lið.“

„Það slökknaði á okkur eftir tvær mínútur. Ég meina þetta ekki neikvætt gagnvart neinum sem komu að þessum leik en þetta var leiðinlegasti leikur sem ég hef tekið þátt í á ævinni. Við vorum nánast allan leikinn í vörn og Selfoss drap alla okkar löngun til að spila handbolta,“ sagði Sebastian afar svekktur með frammistöðu liðsins.

HK skoraði aðeins níu mörk í fyrri hálfleik og átti í miklum vandræðum með varnarleik Selfoss.

„Í seinni hálfleik reyndum við að vera líkari sjálfum okkur en það tókst aldrei. Við féllum í gildru og það er áhyggjuefni sem við þurfum að laga.“ 

Sebastian Alexandersson gat horft jákvæðum augum á varnarleik HK.

„Mér fannst vörnin frábær hjá okkur. Við settum líklegast Íslandsmet í hvað dómarinn setti höndina oft upp. Selfoss kom þó oftar en ekki boltanum í netið á endanum og skrifast þetta tap alfarið á okkur.

  

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.