Viðskipti innlent

Ný ís­lensk streymis­veita hefur göngu sína

Eiður Þór Árnason skrifar
Filmflix er rekið af Íslenska sjónvarpsfélaginu. 
Filmflix er rekið af Íslenska sjónvarpsfélaginu.  Filmflex

Ný íslensk streymisveita hefur hafið göngu sína sem sérhæfir sig í klassískum kvikmyndum með íslenskum texta. Streymisveitan ber nafnið Filmflex og leggja aðstandendur áherslu á að sinna klassískum kvikmyndaperlum sem nutu mikillar aðsóknar í kvikmyndahúsum landsmanna á sjöunda og áttunda áratugnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Filmflex að öll heiti kvikmyndanna hafi verið íslenskuð líkt og tíðkaðist á sínum tíma og hinir ýmsu fróðleiksmolar fylgi með ræmunum.

Þá verða eldri sjónvarpsseríur einnig í boði frá sama tímabili, á borð við mini-seríur sem nutu mikilla vinsælda á upphafsárum myndbandavæðingarinnar hér á landi, eins og aðstandendur Filmflex orða það. Þá segja þeir að fjölmargar kvikmyndir megi þar finna sem ekki sé hægt að finna á öðrum streymisveitum. 

Endurreistu Skjá 1 sem streymisveitu

Ekki er greitt mánaðarlegt gjald fyrir aðgang að streymisveitunni, heldur er hægt að leigja stakar kvikmyndir eða þætti á 290 til 590 krónur. Hafa notendur þá aðgang að efninu í 48 klukkustundir.

Filmflex er rekið af Íslenska sjónvarpsfélaginu sem endurreisti Skjá 1 sem streymisveitu árið 2019. Félagið er alfarið í eigu Hólmgeirs Baldurssonar. 

Fram kemur í tilkynningu að Filmflex sé einnig með nýjar og eldri kvikmyndir sem hafa ekki verið sýndar í kvikmyndahúsum hér á landi. Verð fyrir þessa þjónustu er á bilinu 990 til 1.590 krónur.

Þá stendur kvikmyndagerðarfólki og dreifingaraðilum til boða að frumsýna kvikmyndir á streymisveitunni samhliða sýningu í kvikmyndahúsum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×