Handbolti

„Aðeins of ungur til að vera kominn í þetta tjill“

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson léttur í bragði á æfingu í Víkinni í vikunni.
Aron Pálmarsson léttur í bragði á æfingu í Víkinni í vikunni. vísir/vilhelm

Aron Pálmarsson er orðinn heill heilsu eftir meiðsli sem hann varð fyrir í haust. Hann er ánægður með skrefið sem hann tók frá Spáni til Danmerkur í sumar og segir áhugann á handbolta mikið meiri í Danmörku.

Aron er nú við æfingar með íslenska landsliðinu hérlendis þar sem hópurinn nýtir stutt hlé á deildakeppni í Evrópu til að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í janúar.

Aron missti af síðasta stórmóti, HM í Egyptalandi, vegna hnémeiðsla sem hann glímdi við. Hann meiddist einnig stuttu eftir að hafa komið til Álaborgar frá Barcelona í sumar en hefur nú náð sér:

„Ég tognaði í mjöðm og var frá í einhverjar fimm vikur en ég er búinn að ná mér og kominn á fullt aftur,“ segir Aron.

Aron hefur unnið meistaratitil á hverju ári frá árinu 2012, í þýsku, ungversku og spænsku deildinni, og er tilbúinn í harða baráttu um titilinn í Danmörku.

„Það er ein af stóru ástæðunum fyrir því að ég skipti. Þetta var orðið hálfleiðinlegt. Munurinn var bara allt of mikill,“ segir Aron en Evrópumeistarar Barcelona hafa verið með langbesta lið Spánar um langt árabil.

„Núna er ég kominn í alvöru deild. Áhuginn er líka miklu meiri. Maður var að spila fyrir tómum höllum og það var ekki út af Covid. Þetta er allt annað. Mér fannst ég aðeins of ungur til að vera kominn í þetta tjill. Ég þurfti nýja áskorun og fann hana heldur betur þarna,“ segir Aron um komuna til Álaborgar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.