Viðskipti innlent

„Verslunin hefur færst heim“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar. Vísir/Arnar

Erlend verslun hefur dregist saman um tvö þriðju síðustu ár meðan sú innlenda hefur aukist talsvert. Innlend fataverslun á netinu þrefaldaðist á síðasta ári og sú erlenda jókst um helming. Verslunin hefur færst heim segir framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Kauphegðun landans breyttist talsvert í Covid . Ef horft er til innlendrar fataverslunar kemur í ljós að 75 prósent aðspurðra hafði verslað síðast hér á landi meðan það voru 60% árið 2018. Á sama tíma dróst fataverslun erlendis verulega saman og nú verslar um einn af hverjum tíu hér heima en voru þrír af hverjum tíu. Innlend netverslun þrefaldaðist á tímabilinu og helmingi fleiri keyptu föt á erlendum vefsíðum á þessu ári en árið 2018. 

„Eitt af því jákvæða sem við tökum út úr Covid er að íslensk verslun hefur blómstrað þann tíma. Ferðalögin hafa dregist saman á tímabilinu og verslunin færst heim,“ segir Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Kristín Inga Jónsdóttir forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins segir að á síðasta ári hafi líka orðið sprenging í innlendri vefverslun.

„Það eru brjáluð tækifæri í íslenskri netverslun. Hún náttúrulega sprakk út í Covid og átti helling inni. Íslenskar smásölur voru þá og eru að færa sig yfir á netið,“ segir Kristín.

Kristín Inga Jónsdóttir forstöðumaður markaðsdeildar PóstsinsVísir

Innlend og erlend netverslun eigi aðeins eftir að aukast.

„Okkar viðskiptavinir taka mjög vel í sjálfvirku og stafrænu leiðirnar. Fólk tekur mjög vel í að geta gengið frá sínum kaupum á netinu,“ segir hún. 

Sigurjón segir íslenska verslun vel í stakk búna að keppa við erlenda netverslun.

„Við erum að sjálfsögðu meðvituð erlenda netverslun og erum að stíga í þá átt að mæta þessari auknu samkeppni,“ segir hann.

Hann segir kaupmenn búast við mikilli verslun í  Kringlunni í dag.

„Við erum með miðnætursprengju í Kringlunni í dag í fyrsta skipti í tvö ár. Þetta er upphaf jólavertíðarinnar og má búast við allt að fjörutíuþúsund manns í húsið í dag,“ segir Sigurjón.  





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×