Körfubolti

Villurnar sem Njarðvíkingar töldu að ekki væri Fotios fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fotios Lampropoulos var ósáttur með að vera flautaður út úr leiknum í gærkvöldi.
Fotios Lampropoulos var ósáttur með að vera flautaður út úr leiknum í gærkvöldi. Skjámynd/S2 Sport

Það varð kannski minna úr einvígi miðherjanna öflugu Ivan Aurrecoechea og Fotios Lampropoulos í gær en menn vonuðust til þegar Grindavík og Njarðvík mættust í Subway-deild karla. Ástæðan voru villuvandræði Grikkjans í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar urðu í gær fyrsta liðið til að vinna Njarðvík í deildinni í vetur og sýndu með þessum sigri að þeir eru til alls líklegir á þessari leiktíð.

Þá munar um að vera með hinn öfluga spænska miðherja undir körfunum en Ivan Aurrecoechea lét mikið hafa fyrir sér í leiknum í gær.

Njarðvíkingar voru mjög ósáttir með villurnar þrjár sem Fotios Lampropoulos fékk á fyrstu sex mínútum leiksins. Þegar hann yfirgaf völlinn með þrjár villur þá voru Njarðvíkingar sjö stigum yfir, 17-10.

„Við erum 19-10 yfir og erum inn í okkar skipulagi en svo er hann bara flautaður út. Það voru allir í körfuboltahreyfingunni að bíða eftir einvígi Fotios og Ivans. Sjá þessa öflugu stóru menn kljást hérna en það var ekki leyft í dag,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur, við Svala Björgvinsson eftir leikinn.

Fyrsta villa Fotios er alltaf villa, önnur villan er kannski ódýr og sú þriðja verður að teljast frekar vafasöm en þá fiskaði Ólafur Ólafsson á hann ruðning með tilþrifum. Það má sjá allar þessar þrjár villur hér fyrir neðan.

Fotios Lampropoulos var með 15 stig og 12 fráköst á tæpum 26 mínútum í leiknum í gærkvöldi en á móti skoraði Ivan Aurrecoechea 24 stig og tók 17 fráköst. Ivan fiskaði líka átta villur á Njarðvíkinga.

Klippa: Villur Fotios Lampropoulos í upphafi leiks



Fleiri fréttir

Sjá meira


×