Körfubolti

Ben Simmons kom öllum á óvörum með því að mæta í vinnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samherjarnir Ben Simmons og  Joel Embiid geta vonandi fundið góða lausn og spilað aftur saman.
Samherjarnir Ben Simmons og  Joel Embiid geta vonandi fundið góða lausn og spilað aftur saman. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Nú lítur allt í einu út fyrir það að Ben Simmons muni eftir allt saman spila með Philadelphia 76ers liðinu í NBA deildinni í körfubolta í vetur.

Simmons var mjög ósáttur með að vera gerður að blóraböggli eftir ófarir 76ers liðsins í síðustu úrslitakeppni og hótaði því að spila aldrei aftur fyrir félagið.

Það var sérstök hótun því Simmons á enn eftir fjögur ár af samningi sínum við 76ers og hann á að fá fyrir þau 147 milljónir dollara eða meira en nítján milljarða íslenskra króna. Simmons vildi Philadelphia skipti honum til annars félags í NBA deildinni.

Simmons hafði lokað á öll samskipti við bæði forráðamenn og liðsfélaga hjá Philadelphia 76ers á haustmánuðum en félaginu gekk á sama tíma ekkert að finna ásættanleg leikmannaskipti.

Ben Simmons er stjörnubakvörður sem var með 14,3 stig, 7,2 fráköst og 6,9 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en hann lækkaði reyndar í öllum þeim tölfræðiþáttum frá því á tímabilinu á undan. Hann er frábær varnarmaður og leikstjórnandi en skelfilegur skotmaður sem hefur orðið stórt vandamál þegar leikirnir verða mikilvægari í úrslitakeppninni.

Um helgina fór það að leka út að Simmons væri að endurskoða afstöðu sína og í gærkvöldi mætti hann síðan óvænt í vinnuna. Philadelphia 76ers var þá að spila æfingaleik á móti Brooklyn Nets sem liðið vann 115-104.

Simmons mætti í höllina rétt fyrir leik eftir flug frá Los Angeles og hóf endurkomuferlið sem hann þarf að fara gegnum vegna kórónuveirunnar.

Simmons hafði þegar sleppt öllum æfingabúðum liðsins sem hafði þegar kostað hann yfir eina milljón dollara í sektir eða meira en 130 milljónir íslenskra króna.

Það er samt ekki vitað hvað tekur við en í það minnsta geta aðilar byrjað að tala aftur saman og það er alltaf stórt skref í rétt átt. Simmons hefur látið sína skoðun skýrt í ljós en tekur vonandi sönsum og fer að mæta reglulega í vinnuna sína.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.