Dusty rúllaði Ármanni upp

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Ármann dusty 08.10.21

Lið Dusty þarf varla að kynna enda margfaldir meistarar í CS:GO hér á landi og þótti því sigurstranglegra fyrir leikinn í gærkvöldi. Lið Ármanns er hins vegar nýtt í deildinni en þar kemur saman uppistaðan úr liði KR frá því á síðasta tímabili í bland við reyndar kempur úr CS samfélaginu. Liðinu er spáð ágætis gengi í deildinni en til að svo geti orðið þarf Ármann að sýna aðrar hliðar en þær sem birtust áhorfendum í gær.

Dusty og Ármann mættust í Ancient kortinu og var þetta fyrsti leikur í íslenskri keppni sem fram fer þar, en kortið kom í stað Train nú í sumar. Dusty hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) en Ancient er af mörgum talið henta betur liðinu sem verst hryðjuverkamönnunum.

Glæsilegri byrjun á leik er vart hægt að hugsa sér. Strax í fyrstu lotu sýndi Dusty yfirburði sína þegar liðið stráfelldi leikmenn Ármanns og til að bæta gráu ofan á svart lauk ThorsteinnF lotunni á því að hnífa Hundza og setti þar með tóninn fyrir leikinn, og mögulega tímabilið. Önnur lota fór rólega af stað allt þar til ThorsteinnF felldi alla leikmenn Ármanns einn síns liðs og krækti sér í sinn fyrsta ás á tímabilinu. Ljóst varð að Dusty þekkti kortið vel þó það sé einungis nýfarið að keppa í því og tókst þeim að sækja hverja lotuna á fætur annarri með taktískum sprengjuköstum og laumulegum umsátrum. Leikmenn Ármanns voru ekki upp á sitt besta og þurfti Hundzi að leggja sig allan fram til að skila sínu liði fellum og þremur lotum í fyrri hálfleik. Vargur og Kruzer voru lengi í gang á meðan Eddi og LeFluff skiluðu sínu fyrir Dusty.

Staða í hálfleik Ármann 3 - 12 Dusty

Ármann reyndi að klóra í bakkann í síðari hálfleik sem var í styttra lagi. Skotin þeirra geiguðu þó allt of oft og var því hægur leikur fyrir Dusty að hafa betur. Dusty sýndi áræðni og yfirvegun í leik sínum sem sýndi sig í næst síðustu lotu þegar LeFluff hreinlega beið eftir að fá leikmenn Ármanns í fangið og felldi fjóra þeirra hratt og örugglega.

Lokastaða: Ármann 3 - 16 Dusty

Dusty byrjaði tímabilið því á að gera það sem þeir gera best, að vinna leiki, en leikmenn Ármanns þurfa að slípa sig betur saman ætli þeir sér að ná árangri á tímabilinu. Næsta þriðjudag mætir Dusty liði Sögu en Ármann leikur gegn Vallea á föstudaginn. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Skipulagt lið XY lagði árásargjarna Kórdrengi

XY lagði Kórdrengi í fyrsta leik tímabilsins í Vodafone deildinni í CS:GO. Eftir frábæran fyrri hálfleik fór að síga undan fæti hjá Kórdrengjum sem réðu ekkert við sterka sókn XY og töpuðu því 16-12.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.