Viðskipti innlent

Farþegum Icelandair hefur fjölgað um 9% á árinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugvél Icelandair við Leifsstöð
Flugvél Icelandair við Leifsstöð Vísir/Vilhelm

Icelandair flutti níu prósent fleiri farþega á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Tæplega sextánfalt fleiri farþegar voru í millilandaflugi nú í september en í fyrra.

Yfir 212.000 farþegar flugu með Icelandair í september síðastliðnum samanborið við tæplega 25.000 í sama mánuði í fyrra, að því er kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum fyrir september sem Icelandair Group birti í Kauphöllinni í dag.

Kórónuveirufaraldurinn hafði gríðarleg áhrif á flugsamgöngur í fyrra. Ferðalögum hefur tekið að fjölga á þessu ári þegar slakað var á sóttvarnaaðgerðum víða um lönd eftir bólusetningarherferðir. 

Heildarfarþegafjöldi félagsins hefur nú aukist um 9% á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins. Þá heldur farþegum í innanlandsflugi áfram að fjölga auk þess sem fraktflutningar félagsins aukast.

Farþegar í millilandaflugi voru tæplega 191.000 í liðnum mánuði, samanborið við um 12.000 í september 2020. Farþegar til Íslands voru 102.000 samanborið við tæplega 6.000 í september 2020 og farþegar frá Íslandi voru 23.000 en voru tæplega 6.000 í september 2020. Tengifarþegar voru 65.000 en nær ekkert tengiflug var á sama tíma í fyrra. Stundvísi í millilandaflugi var 88%.

Sætanýting í millilandaflugi var 62% samanborið við 45% í september í fyrra. Óvissa vegna Delta afbrigðis kórónuveirunnar er það sem hafði mest áhrif á sætanýtingu. Að auki hefur Icelandair líkt og undanfarna mánuði notað Boeing 767 flugvélar í stað smærri flugvéla á mörgum flugleiðum vegna mikillar eftirspurnar eftir fraktrými.

Farþegar í innanlandsflugi voru 21.500 samanborið við tæplega 13.000 farþega í sama mánuði í fyrra. Farþegum í innanlandsflugi hefur fjölgað um 57% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Fjöldi seldra blokktíma í leigustarfsemi jókst um 153% á milli ára í september og var 35% meiri en í ágúst 2021. Fraktflutningar jukust um 42% frá september 2020 og hafa aukist um 23% fyrstu níu mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×