Körfubolti

Til­vera körfu­knatt­leiks­deildar Skalla­gríms hangir á blá­þræði: Hætta á að draga þurfi liðið úr keppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki er nema um eitt og hálft ár síðan Skallagrímur varð bikarmeistari kvenna í körfubolta. Nú ríkir óvissa um framtíð liðsins.
Ekki er nema um eitt og hálft ár síðan Skallagrímur varð bikarmeistari kvenna í körfubolta. Nú ríkir óvissa um framtíð liðsins. vísir/daníel

Körfuknattleiksdeild Skallagríms berst nú fyrir tilverurétti sínum. Boðað hefur verið til neyðarfundar til að ræða stöðuna sem upp er komin. Svo gæti farið að draga þurfi lið Skallagríms úr leik á Íslandsmótinu.

Á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Skallagríms í dag birtist ákall til íbúa Borgarness og velunnara körfuboltans þar í bæ. Þar segir að tilvera körfuknattleiksdeildar Skallagríms hangi á bláþræði.

Skortur er á sjálfboðaliðum og fjármagni og ef ekki tekst að ráða bót á því þarf að draga lið Skallagríms úr keppni á Íslandsmótinu. Kvennalið Skallagríms á að mæta Keflavík í 1. umferð úrvalsdeildarinnar á morgun. Skallagrímur varð bikarmeistari kvenna í fyrra og endaði í 6. sæti Domino's deildarinnar á síðasta tímabili.

Karlalið Skallagríms hefur tapað báðum leikjum sínum í 1. deild, gegn Álftanesi og Fjölni. Borgnesingar léku síðast í efstu deild tímabilið 2018-19.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms ætlar að reyna til þrautar að bjarga málunum og hefur því boðað til neyðarfundar með íbúum Borgarness, stuðningafólki körfunnar og öðrum sem vilja bregðast við stöðunni sem upp er komin. Fundurinn verður í grunnskóla Borgarness á fimmtudaginn klukkan 20:00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.