Viðskipti erlent

Kvikmynda- og þáttagerð í Hollywood gæti stöðvast

Kjartan Kjartansson skrifar
Poppvélarnar þagna. Mögulegt verkfall starfsmanna í kvikmyndaiðnaði gæti haft ófyrirséð áhrif.
Poppvélarnar þagna. Mögulegt verkfall starfsmanna í kvikmyndaiðnaði gæti haft ófyrirséð áhrif. Vísir/Getty

Nær öll kvikmynda- og þáttagerð í Bandaríkjunum gæti stöðvast komi til verkfalls fleiri en 50.000 starfsmanna í kvikmyndabransanum. Stéttarfélag þeirra samþykkti vinnustöðvun sem gæti orðið sú stærsta frá því í síðari heimstyrjöldinni.

Starfsfólk i kvikmyndaiðnaði sem tilheyrir Alþjóðlegu bandalagi leikhús- og sviðsstarfsmanna (IATSE) er langþreytt á löngum vinnudögum með lítilli sem engri hvíld eða matarhléum sem hægt er að ganga að sem vísum.

Upp úr viðræðum félagsins og Bandalags kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda slitnaði í síðasta mánuði. Því samþykktu 98% félagsmanna heimild til að boða til verkfalls í atkvæðagreiðslu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Í félaginu eru meðal annars kvikmyndatökumenn, leikmunahönnuðir, hárgreiðslufólk og fleiri.

Ekki er öruggt að til verkfalls komi en verði sú raunin gæti það haft gríðarleg áhrif á iðnaðinn. Síðast gerðist það þegar handritshöfundar fóru í verkfall árið 2007 til 2008.

Stéttarfélagið krefst betri vinnuaðstæðna og sanngjarnari launa frá streymisveitum eins og Netflix og Amazon.

BBC segir að félagsmenn segi frá fimmtán klukkustunda vinnudögum og að þeir vinni meira en sjötíu til áttatíu tíma á viku. Algengt sé að í lok langrar vinnuviku sé fólk látið mæta síðdegis eða að kvöldi föstudags og vinna fram undir morgun á laugardag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×