Körfubolti

Lárus Jónsson: „Sóknarleikurinn var góður hjá okkur allan leikinn en vörnin bara í þriðja“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Íslandsmeistara Þórs, var eðlilega kampakátur eftir að liðið tryggði sér titilinn Meistarar meistaranna í kvöld.
Lárus Jónsson, þjálfari Íslandsmeistara Þórs, var eðlilega kampakátur eftir að liðið tryggði sér titilinn Meistarar meistaranna í kvöld. vísir/hulda margrét

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, var eðlilega sáttur í leikslok eftir að liðið sigraði Njarðvík í Meistarakeppni KKÍ 113-100, og tryggðu sér um leið titilinn Meistarar meistaranna.

„Leikurinn var í jafnvægi svona fyrstu tvo fjórðungana og bæði lið að spila hörkuvel í sókn, en svo small vörnin hjá okkur,“ sagði Lárus eftir leikinn.

Þórsarar unnu þriðja leikhluta með 17 stigum, og það lagði grunninn að góðum sigri heimamanna. Lárus segir að það hafi verið eini leikhlutinn sem hans menn spiluðu góða vörn.

„Sóknarleikurinn var góður hjá okkur allan leikinn en vörnin bara í þriðja.“

Lárus er með mikið breytt lið í höndunum frá því að Þórsarar unnu Íslandsmeistaratitilinn í vor. Hann segist vera ánægður með sóknarleikinn í dag og að liðið hafi slípað sig saman í varnarleiknum í seinni hálfleik.

„Mér fannst bara vera gott flæði hjá okkur í sókninni, allir voru óeigingjarnir og svo vorum við kannski að tala aðeins betur saman í vörninni í seinni hálfleik. Ég var ánægður með það. Menn voru að leysa vörnina sjálfir inni á vellinum.“

„Ég hugsa að við verðum gott sóknarlið í vetur og nú er bara spurningin, eru strákarnir tilbúnir að leggja vinnuna í að vera gott varnarlið og þá verðum við góðir.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.