Körfubolti

Sú besta í WNBA deildinni kemur frá Bahama­eyjum og spilar fyrir Bosníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonquel Jones hefur spilað frábærlega með liði Connecticut Sun en er nú komin upp að vegg í úrslitakeppninni í WNBA deildinni.
Jonquel Jones hefur spilað frábærlega með liði Connecticut Sun en er nú komin upp að vegg í úrslitakeppninni í WNBA deildinni. Getty/Scott Taetsch

Hún bætti sig mest allra í WNBA deildinni árið 2017, var valin besti sjötti maðurinn árið 2018 og var svo kosin besti leikmaðurinn í ár.

Jonquel Jones átti frábært tímabil með Connecticut Sun í WNBA deildinni í körfubolta og fékk í gær yfirburðarkosningu sem mikilvægasti leikmaðurinn í deildinni.

Jones fékk 48 af 49 atkvæði í fyrsta sætið og alls 487 stig en það eru fjölmiðlafólk sem fjallar um WNBA deildina sem kýs alveg eins og í NBA deildinni.

Brittney Griner, miðherji Phoenix Mercury varð í öðru sæti en fékk 263 færri stig. Breanna Stewart hjá Seattle Storm varð þriðja.

Jonquel Jones er 27 ára og 198 sentímetra kraftframherji sem kemur fram Bahamaeyjum. Hún var að spila sitt fimmta tímabil í WNNBA-deildinni. Hún er líka landsliðskona Bosníu og spilaði með landsliðinu á Eurobasket í sumar. Þar tók hún meðal annars 24 fráköst í einum leikjanna sem er met í úrslitakeppni EM.

Hún hefur verið á mikilli uppleið lengi. Hún var sú sem bætti sig mest allra í WNBA deildinni árið 2017 og var síðan valin besti sjötti maðurinn árið 2018. Nú lék enginn í deildinni mikilvægara hlutverk að mati þeirra sem fylgjast best með deildinni.

Jones var með 19,4 stig, 11,2 fráköst, 2,8 stoðsendingar, 1,26 varin skot og 1,26 stolna bolta að meðaltali í leik en hún var efst í fráköstum í deildinni og í fjórða sæti í stigaskori. Þetta var í þriðja sinn á fimm árum sem hún tekur flest fráköst.

Connecticut Sun vann 81 prósent leikja sinna sem er nýtt félagsmet og endaði deildarkeppnina á fjórtán sigurleikjum í röð. Liðið vann alls 26 af 32 leikjum sínum og var með besta árangurinn af öllum liðum deildarinnar.

Sun hefur aldrei orðið WNBA meistari en mætir Chicago Sky í undanúrslitunum úrslitakeppninnar. Fyrsti leikurinn fór fram í nótt og vann Chicago leikinn eftir tvær framlengingar. Jones var með 26 stig og 11 fráköst en það dugði ekki til. Sun þarf því að vinna næstu tvo leiki til að komast í lokaúrslitin.

Courtney Vandersloot hjá Chicago Sky bauð upp á þrefalda tvennu en hún var með 12 stig, 10 fráköst og hvorki meira né minna en 18 stoðsendingar sem er met í úrslitakeppninni. Þetta var aðeins önnur þrennan í sögu úrslitakeppni WNBA og hin kom árið 2005.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×