Umfjöllun og viðtöl: KA - Víkingur 23-18 | Öruggur sigur KA manna á nýliðunum

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
KA er með fullt hús stiga eftir að hafa mætt báðum nýliðum deildarinnar í fyrstu tveim leikjunum.
KA er með fullt hús stiga eftir að hafa mætt báðum nýliðum deildarinnar í fyrstu tveim leikjunum. Vísir/Hulda

KA menn unnu góðan sigur á nýliðum Víkings í KA heimilinu í kvöld og eru með fullt hús stiga í Olís deild karla. Lokatölur 23-18 og var sigurinn nokkuð sannfærandi hjá heimamönnum.

Leikurinn fór rólega af stað, hvort liðið um sig skoraði mark á fyrstu mínútu leiksins en svo kom markaþurrð næstu fimm mínúturnar eða þar til Einar Birgir skoraði fyrir heimamenn. Í kjölfarið fylgdu tvö mörk í viðbót og staðan orðinn 4-1 fyrir KA.

Þá tóku gestirnir leikhlé sem bar árangur en þeir skoruðu næstu tvö mörk og minnkuðu muninn niður í 4-3. Það var lítið skorað næstu mínútur, tempóið var lágt í leiknum, sóknarleikurinn fremur hugmyndarsnauður og báðir markmenn að taka skot. Staðan eftir korters leik 6-5 en þá skildu leiðir í bili. KA skoraði næstu fimm mörk leiksins og komust í 10-5. Gestirnir náðu þó að laga stöðuna fyrir hálfleik og þegar leikmenn gengu til búningsklefa var staðan 12-9 fyrir heimamönnum.

KA hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og héldu gestunum í góðri fjarlægð. Þeir náðu mest sex marka forystu. Sigurinn var í raun aldrei í hættu hjá heimamönnum og lokamínútur báru þess merki. Kæruleysi á báða bóga sem var ekki mikið fyrir augað. Lokatölur 23-18 fyrir KA sem áttu sigurinn skilið. KA er því búið að vinna báða nýliðana í fyrstu tveimur leikjunum og eru með fullt hús stiga í Olís deild karla.

Afhverju vann KA?

Það var töluverður munur á gæðum liðanna í dag. Það hvernig leikurinn þróaðist þá var þetta í raun skyldusigur hjá heimamönnum. Jón Gunnlaugur þjálfari Víkings kvartaði undan framtaksleysi sinna manna í viðtali eftir leik og það er klárlega hluti af því að Víkingur náði ekki að gera betri atlögu að KA í dag. Þeir þurfa að hafa meiri trú á sér og verkefninu. KA menn kláruðu leikinn hins vegar fagmannlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Nicholas Satchwell var frábær í marki KA með 16 skot. Á tímabili í fyrri hálfleik var hann með 71% markvörslu. Þá var Patrekur Stefánsson góður í liði KA með sjö mörk og þar á eftir Einar Rafn með sex mörk skoruð.

Jovan Kukobat var góður í marki gestanna með 11 skot varinn. Gísli Jörgen, Jóhann Reynir og Jóhannes Berg drógu vagninn sóknarlega. Gísli markahæstur með fjögur mörk.

Hvað gekk illa?

Gestirnir voru að skjóta mjög illa í fyrri hálfleik og Nicholas í marki KA átti ekki í nokkrum vandræðum með skotin. Skotin voru sömuleiðis illa tímasett oft á tíðum. Í seinni hálfleik gerðust gestirnir sig seka um mikið af klaufalegum mistökum og mörgum töpuðum boltum. Það var þeim m.a. að falli í dag.

Hvað gerist næst?

Nú kemur smá pása en KA fer svo til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV 10. október næstkomandi. Víkingur fær Val í heimsókn en sá leikur fer fram 9. október.

Jónatan Magnússon: Ætluðum að vera með fjögur stig eftir tvo leiki

Jónatan Magnússon léttur í bragði fyrir utan KA-heimilið, hann var að vonum sáttur með sigur sinna manna í kvöld.MYND/STÖÐ 2

„Ég er bara mjög ánægður. Það er gott að ná í fyrsta heimasigurinn og stimpla okkur svolítið inn. Við erum núna búnir að spila einn útileik og einn heimaleik og gott að ná í sigur í báðum leikjum,“ sagði Jónatan Magnússon þjálfari KA eftir góðan sigur á Víking í KA heimilinu í kvöld.

„Ég er mjög sáttur við varnarleikinn. Mér fannst við spila mjög góða vörn og svona heilt yfir náðu við að leysa það sem Víkingur ætlaði að bjóða upp á. Ég er ekki alveg jafn ánægður með tempóið, við ætluðum að keyra meira á þá og mér fannst það ekki ganga nógu vel. Tempóið var lágt í leiknum og mér fannst við oft lengi í vörn. Þannig við náðum ekki alveg að stýra tempóinu eins mikið og ég hefði viljað.“

KA hefur sigrað fyrstu tvo leikina í deild.

„Við ætluðum að vera með fjögur stig eftir tvo leiki og það tókst. Nú fáum við smá pásu og eigum svo leik á móti ÍBV. Við þurfum að byggja ofan á þessum tveimur leikjum. Varnarleikurinn var mjög góður í dag en hann var ekkert sérstakur á móti HK. Ég er samt mjög ánægður með mína menn og að fá fólkið með okkur hér í KA heimilinu. Við ætlum að búa til vígi hér og þá er þetta frábært fyrsta skref að ná í góðan sigur á vel skipulögðu Víkingsliði.“

Jónatan sagði stöðuna á hópnum góða í dag og enginn meiðsli væru í hópnum.

„Það eru engin meiðsli í hópnum en það er ákveðin breyting á hópnum, margir nýir leikmenn komnir og aðrir farnir. Ég vil meina það að við eigum aðeins inni í ákveðnum takt í liðinu. Ég sagði þetta líklega í síðasta viðtali líka en ég vona að þetta hafi ekki verið besti leikurinn okkar í vetur en það var mikill kraftur og barátta.“

Ólafur Gústafsson kom ekki við sögu í leiknum í dag og vermdi varamannabekkinn.

„Það er frábær spurning. Við ákváðum bara að nota hann ekkert í dag.“

ÍBV er næsta verkefni KA manna.

„Það verður mjög gaman, alltaf gaman að koma til eyja. Ég vona að við náum í tvö stig. Það er allavega stefnan að ná í útisigur.“

Jón Gunnlaugur: Þarf framlag frá fleiri leikmönnum

Jón Gunnlaugur Viggósson (t.v.), segir að hann þurfi framlag frá fleiri mönnum.Mynd/Víkingur

„Þrátt fyrir að við höldum KA í 23 mörkum þá vorum við samt týndir varnarlega í dag. Það vantaði framlag frá fleiri leikmönnum. Það er ekki flóknara en það. Það hefði ekki þurft mikið upp á í dag til að þetta hefði verið leikur. Ég er frekar ósáttur eftir þessa frammistöðu,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggóson þjálfari Víkings eftir 23-18 tap á móti KA í KA heimilinu í dag.

„Við erum varla að klukka þá, við erum að fá mjög lítið af hraðaupphlaupum. Við erum að skjóta beint á markmanninn í svona 80% af skotunum okkar. Framlagið kom kannski frá tveimur til þremur leikmönnum.“

Það var fín markadreifing hjá liði Víkings og þótt það sé af hinu góða kom það þó ekki til af góðu.

„Það var af því ég var að rótera mikið af því mér fannst ég ekki vera að finna réttu blönduna varnarlega hvað þá sóknarlega. Þetta var bara ekki gott hjá okkur. Við þurfum að gera meira. Ef við ætlum að taka sigra og ætlum að standa í þessum liðum sem eiga að vera betri en við þá þurfum við að fá framlag frá meirihlutanum af liðinu. Ef það eru bara tveir til þrír sem eru að gera eitthvað en hinir eru bara ekki með þá bara verður þetta helvíti erfitt.“

Jón Viggó var þá spurður út í hvað þyrfti til að ná í þessa mikilvægu sigra.

„Við þurfum bara að mæta til leiks og spila okkar bolta. Við áttum að mínu mati að taka tvö stig í síðasta leik. Það vantar ekki mikið upp á hérna. Við höldum KA í 23 mörkum. Það er hægt að byggja ofan á þessa tvo leiki og sigrarnir munu koma en við þurfum bara að mæta gíraðir. Það þurfa töluvert margir leikmenn að stíga upp til að við tökum sigra.“

Jovan Kukobat var góður í marki gestanna í dag með 11 varin skot eða 33% markvörslu.

„Hann var frábær í dag á sínum gamla heimavelli. Jovan er frábær markmaður en ég hefði viljað stíga upp varnarlega líka. Þá hefðum við haldið KA í 17-18 mörkum í þessum leik og hefðum tekið tvo stig í þessum leik. Það er ekkert flóknara en það.“

Víkingsliðið fær verðugt verkefni í næsta leik.

„Mér líst frábærlega á það verkefni. Við höfum allt að sanna. Við þurfum að gíra okkur upp í smá geðveiki þar og mæta til að taka tvö stig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira