Leikjavísir

De­at­hloop: Sjaldan skemmti­legra að strá­fella ó­vini

Samúel Karl Ólason skrifar
Colt er búinn hæfileikum sem líkjast töfrum og er hægt að nota til að berjast á fjölbreyttan og skemmtilegan máta.
Colt er búinn hæfileikum sem líkjast töfrum og er hægt að nota til að berjast á fjölbreyttan og skemmtilegan máta. Bethesda

Deathloop er sérlega vel heppnaður, skemmtilegur og krefjandi skot/hasar/ævintýra-leikur. Hann býr yfir áhugaverðri sögu en hann getur þó orðið smá einsleitur og á köflum er erfitt að ná áttum á því sem er að gerast.

Söguhetja leiksins, Colt Vahn, er myrtur af ungri konu og vaknar aftur á strönd eyjunnar Blackreef. Hann er alveg minnislaus og þarf að safna upplýsingum um það hvað hann er að gera á eyjunni og hvernig hann kemst þaðan. Auk þess þarf hann að leysa leyndardóm eyjunnar.

Þannig er mál með vexti að íbúar eyjunnar eru fastir í sama deginum, það er að segja að sami dagurinn gerist aftur og aftur og aðeins nokkrar manneskjur muna eftir því hvað gerist milli daga.

Colt vill stöðva þennan Groundhog day og sleppa en til þess þarf hann að myrða fullt af fólki og það ítrekað. Erfitt er að segja meira án þess að kasta fram spennuspillum. Ímyndið ykkur reiðan og meira töff Bill Murray með haug af byssum í vasanum.

Dagurinn í Deathloop skiptist í fjóra hluta: Morgun, hádegi, eftirmiðdegi og kvöld. Þá skiptist Blackreef í fjögur svæði og gerast mismunandi hlutar á hverju svæði eftir því hvað klukkan er.

Spilarar þurfa því að heimsækja öll svæði leiksins ítrekað yfir spilun leiksins og leysa hinar ýmsu þrautir og myrða fólk í búntum. Maður fær nánast samviskubit yfir því að myrða allt þetta fólk en það sleppur því maður þarf hvort eð er að myrða þau aftur næsta dag.

Julianna er erkióvinur Colts og er hreint út sagt óþolandi á köflum. Sérstaklega í höndum annarra spilara sem gera innrás í leikinn hjá manni.Bethesda

Þegar Colt deyr byrjar dagurinn upp á nýtt og mögulega tapar maður öllu því sem maður var búinn að safna.

Til að komast af eyjunni og koma tímanum aftur í eðlilegan farveg þarf Colt að drepa átta manns á einum deyi, án þess að deyja. Til þess þarf maður að læra það sem maður getur um skotmörkin. Einnig þarf að vinna að því að koma sem flestum skotmörkum sínum saman á sömu tímabil dagsins svo það sé hægt en það þarfnast mikils undirbúnings.

Leikurinn er gerður af sömu aðilum og gerðu Dishonored leikina vinsælu og ber Deathloop þess keim. Deathloop er bæði svipaður að útliti og Colt getur öðlast marga af sömu hæfileikunum og hægt var að fá í Dishonored, eins og að fjarflytja sig og kasta fólki upp í loftið.

Það er hægt að finna fjölmargar leiðir til að drepa fólk með mismunandi skotvopnum og hæfileikum, eða bara með því að sparka fólki fram af klettum og húsum. Þegar spilarar fá meira sjálfsöryggi með Colt verður stórskemmtilegt að leika sér að því að nýta hæfileika hans í botn.

Ég er sérstaklega stoltur af einum leiðangri þar sem ég fór þvers og kruss um eitt svæðið og safnaði saman átta eða níu sjálfvirkum byssum, sem ég stillti upp fyrir utan partí sem óvinir Colt eru að halda. Síðan dró ég þá út í massavís þar sem óvinirnir voru stráfelldir. Einkar sniðugt af mér.

Naglabyssan er einkar skemmtilegt vopn.Bethesda

Flóknar gátur sem skila oft litlu

Gátur Deathloop eru margar. Meðal annars þarf að finna tölur á veggjum og raða þeim saman í þrjú lykilorð til að opna skáp. Það þarf einnig að leysa ýmsar líkamlegar þrautir eins og hlaupa í gegnum ganga og komast undan leysigeislum og svo gerist það oft að maður þarf að vera á einum stað að morgni og gera eitthvað til að hafa áhrif á annan stað að kvöldi.

Þetta er allt saman gífurlega mikið og á köflum hefur mér þótt of mikið um að vera á Blackreef og erfitt að halda stefnu. Þá eru sumar þrautirnar einfaldlega fáránlega erfiðar og stundum fyrir lítil og asnaleg verðlaun.

Ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir töluverðum vonbrigðum með verðlaun í Deathloop sem mér finnst ekki hafa verið ómaksins virði og það er stundum mega-ómak að leysa þessar þrautir. Allavega fyrir drullusokk eins og mig.

Bethesda

Skemma daga fyrir öðrum

Fjölspilun Deathloop virkar á þann veg að spilarar geta farið inn í leiki annarra, sem Julianna, og reynt að drepa Colt og þar með skemma fyrir öðrum og jafnvel skemma heilu dagana. Tilfinningar mínar gagnvart þessu kerfi eru blendnar.

Í upphafi voru aðrir spilarar sem virðast fagmenn að koma inn í leikina mína og bókstaflega rústa mér. Það leiddi til þess að ég slökkti á leiknum í bræði og svo á endanum slökkti ég líka á því að aðrir spilarar gætu komið inn í mína leiki.

Julianna ræðst áfram á mig í miðjum verkefnum en tölvan stýrir henni. Ég veit! Ég þarf að kveikja á þessu aftur. Það er bara svo pirrandi að vera drepinn af einhverjum fávita.

Ég hef persónulega ekki prófað að rústa öðrum spilurum sem Julianna, því ég vil klára söguna fyrst.

Bethesda

Samantekt-ish

Deathloop er eins og áður segir þrususkemmtilegur leikur. Þó hann geti verið frekar einsleitur og þvingað spilara til að „grinda“ svolítið. Þá eru ansi mikil líkindi milli Deathloop og Dishonored-leikjanna, sem er í sjálfu sér ekkert slæmt, þar sem margt það besta úr þeim leikjum er hluti af Deathloop.

Þá mættu líka vera fleiri tegundir af byssum í leiknum. Skortur á þeim pirrar mig smá.

Þegar Deathloop er upp á sitt besta er hann æði. Maður nýtur sín best í Deathloop þegar maður er á ferðinni og að leika sér að myrða fólk skemmtilega, ef svo má að orði komast. Eitt af mínum uppáhalds atvikum í leiknum var þegar ég þurfti að flýja undan Juliönnu eða missa haug af drasli sem ég hafði safnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×