Handbolti

Ýmir og félagar gerðu jafntefli | Kristján Örn skoraði tvö

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen gerðu jafntefli gegn Benfica.
Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen gerðu jafntefli gegn Benfica. Uwe Anspach/picture alliance via Getty Images

Forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta er í fullum gangi og í dag voru fjórir Íslendingar í eldlínunni. Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen gerðu jafntefli gegn Benfica, 31-31, og Kristján Örn Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir franska liðið PAUC í jafntefli gegn norska liðinu ØIF Arendal.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þegar að Ýmir Örn og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen tók á móti Benfica. Liðin skiptust á að skora og staðan var 15-16, Benfica í vil þegar að flautað var til hálfleiks.

Gestirnir í Benfica voru betri aðilinn í upphafi seinni hálfleiks og náðu fjögurra marka forskoti. Þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka var staðan orðin 19-23.

Ýmir og félagar náðu að minnka muninn og jafna að lokum. Uwe Gensheimer skoraði seinasta mark leiksins og tryggði liðinu jafntefli og það er því allt undir þegar liðin mætast að öðru sinni. Sigur í einvíginu gefur sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Norðmennirnir byrjuðu betur gegn Kristjáni Erni og félögum í PAUC þegar að liðin mættust í Noregi. Um miðjan fyrri hálfleik var munurinn orðinn fjögur mörk, en Kristján og félagar söxuðu á forskotið jafnt og þétt. 

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 17-15, Arendal í vil.

Kristján og félagar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu mest þriggja marka forskoti í stöðunni 19-22. Þeir náðu þó ekki að halda forskotinu og lokatölur því 27-27, en Kristján gerði tvö mörk fyrir PAUC.

Þá unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG góðan sex marka sigur gegn Mors-Thy, 30-24. Viktor Gísli kom ekkert við sögu í leiknum.

Að lokum unnu Kadetten Scaffhausen þriggja marka sigur gegn Fraikin BM. Granollers, 36-33. Aðalsteinn Eyjólfsson er í þjálfarateymi Kadetten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×