Leikjavísir

Komin með nóg af Þór en langaði samt að segja sögu sem þau þekktu

Eiður Þór Árnason skrifar
María Guðmundsdóttir vildi vera hreyfiafl breytinga þegar hún sneri aftur í tölvuleikjageirann.
María Guðmundsdóttir vildi vera hreyfiafl breytinga þegar hún sneri aftur í tölvuleikjageirann. Parity

„Við vorum komin með nóg af Óðni, Þór og öllu þessu en okkur langaði samt að segja sögu sem við þekktum,“ segir Maríu Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Parity.

Íslenska tölvuleikafyrirtækið gaf á fimmtudag út sína fyrstu kynningarstiklu fyrir leikinn Island of Winds. Um er að ræða nýjan tölvuleik sem sækir í íslenskan þjóðsagnaarf og verður alfarið talsettur á íslensku.

Stefnt er að því að gefa leikinn út á næsta ári en horft hefur verið á kynningarstikluna rúmlega 80 þúsund sinnum á Youtube-síðu leikjamiðilsins IGN. Þá er tölvuleikurinn í aðalhlutverki í nýju kynningarmyndbandi tölvuleikjarisans Epic Games þar sem sjónum er beint að áhugaverðum leikjum í þróun.

Útlit leiksins er innblásið af Íslandi fylgjast tölvuleikjaspilarar með aðalsöguhetjunni Brynhildi sem er uppi í galdrafárinu á 17. öld. Hún fæðist í fátæka fjölskyldu og var seld í ánauð á unga aldri en flýr á hálendið í von um frelsi.

Hjálpa spilarar Brynhildi að flakka um eyjuna, leysa gátur og verkefni og mæta kynjaverum á borð við sjávarskrímslið Hafgufu og Bjarndýrakónginn sem margir kannast við úr norrænni goðafræði og íslenskum þjóðsögum. Smátt og smátt hjálpa þeir Bryndísi að takast á við áföll og horfast í augu við eigin fortíð.

Brynhildur er aðalsöguhetja Island of Winds.Parity

Hefur verið í þróun í um þrjú ár

Hönnuðir leiksins hafa lagt mikla áherslu á að skapa fallegt landslag og vandaða grafík og geta spilarar ráfað nokkuð frjálslega um eyjuna til að kynna sér hana á eigin forsendum.

„Þetta eru níu einstök svæði sem eru öll innblásin af Íslandi. Þú ferð til dæmis á jökulsvæði, í Reynisfjöru, upp á hálendið og í Laxárgljúfur,“ segir María.

Til að ljúka hverjum og einum áfanga leiksins þarf Brynhildur meðal annars að mæta kynjaverum sem tákna sjálfsefa, áföll og ofbeldi sem hún hefur upplifað á erfiðri ævi.

Leikurinn hefur verið í þróun í um þrjú ár.Parity

„Þetta er svona uppbyggjandi spilun. Í staðinn fyrir að reyna að drepa þá ertu í rauninni að róa og reyna að koma jafnvægi á heiminn aftur,“ segir María.

Leikurinn hefur verið í þróun í um þrjú ár og er sá fyrsti Parity gefur út. María hefur mikla reynslu í tölvuleikjabransanum á Íslandi og stofnaði fyrirtækið árið 2017.

Í upphafi voru fimm til sjö starfsmenn hjá fyrirtækinu en í dag vinna um tuttugu að þróun tölvuleiksins.

Blómstrandi nýsköpunarsena

María segir það vissulega hafa verið áskorun að fjármagna tölvuleikjagerðina en að góðir fjárfestar og 60 milljóna króna styrkur frá Tækniþróunarsjóði hafi skipt þar sköpun.

Einnig hafi skattafrádráttur stjórnvalda vegna nýsköpunar breytt miklu en í fyrra hækkuðu stjórnvöld hlutfall endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum tímabundið úr 20 í 35 prósent vegna áhrifa faraldursins.

„Það hefur bara bjargað fyrirtækjum eins og Parity,“ segir María. Gaman sé að sjá nýsköpunarsenuna blómstra á Íslandi þessi misserin á sama tíma og hugverkaiðnaðurinn sé að verða fjórða stoðin í íslensku hagkerfi.

Brynhildur mætir ýmsum kynjaverum í leiknum.Parity

María tók sín fyrstu skref í tölvuleikjageiranum árið 2002 þegar hún hóf störf hjá CCP. Þar starfaði hún í tólf ár, að hluta til í Sjanghæ þar sem hún vann að skotleiknum DUST 514.

Þegar hún sneri aftur heim til Íslands var María farin að fá leið á tölvuleikjageiranum og langaði helst að skipta um starfsvettvang. Árið 2014 byrjaði hún að vinna hjá Novomatic Lottery Solutions. 

Vildi koma aftur inn í geirann með ferskar áherslur

María segir að henni hafi þótt hressandi að komast í öðruvísi umhverfi eftir langt tímabil hjá CCP og ekki hafi liðið á löngu þar til hún vildi stofna eigið tölvuleikjafyrirtæki.

„Það vantar auðvitað alltaf konur í þennan geira og ég hugsaði: „Ókei, ég fer bara aftur inn, geri eitthvað og reyni að breyta þessu.“ Ég vildi þá líka reyna að búa til tölvuleiki sem ég hefði gaman af því að spila og segja sögur sem höfða kannski meira til mín.“

Líkt og nafnið gefur til kynna er eitt að markmiðum Parity að ýta undir fjölbreytileika í tölvuleikjageiranum, bæði í þróunarteymum og í afrakstri þeirra.

Reynisfjara kemur við sögu í leiknum.Parity

María segir að hugmyndin með Island of Winds sé að auðvelt verði fyrir fólk að komast inn í leikinn, leikþættir séu stuttir og fólki líði vel með að skilja við hann og snúa aftur síðar. Telur hún að uppsetningin henti einkar vel uppteknu fólki á fullorðinsaldri sem hafi takmarkaðan frítíma.

„Það hafa ekki allir þrjá tíma til að setjast niður og spila tölvuleik þannig að Island of Winds á höfða til þeirra sem vilja aðeins dýpri upplifun en símaleikir gefa en hafa ekki alveg tíma til að taka 300 tíma í að klára einn tölvuleik.“

Island of Winds verður fáanlegur fyrir PC-tölvur og Playstation 5 á næsta ári en María útilokar ekki að leikurinn verði síðar fáanlegur fyrir fleiri leikjatölvur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×