Skoðun

Framtíðin er búin

Erna Mist skrifar

Ein hættulegasta og heppilegasta tilhneiging mannsins er að hlaupa hraðar þegar maður villist af leið. Á tímum óvissu og upplausnar höfum við tilhneigingu til að elta uppi glundroðann áður en hann nær að koma okkur á óvart. Við gerumst framsækin og keppumst við að uppfylla eftirspurn nýrra tíma. Við gerumst áhættusækin; kaupum fleiri hlutabréf og förum á fleiri stefnumót. Við víkjum frá vanaganginum, uppfærum eigin sannfæringu, og endurinnréttum hugarheiminn. Þegar fyrirsjáanleikinn yfirgefur okkur frelsumst við undan handritinu og sviðsmynd venjuleikans fellur.

Þegar tímarnir breytast er nauðsynlegt að gleyma heiminum eins og maður þekkir hann til að kynnast honum upp á nýtt. Ég hef ekki áhyggjur af spurningarmerkinu en ég hef áhyggjur af svarinu. Ég óttast ekki flækjustig nútímans, ég óttast lausnina sem framtíðin vill selja mér. Ég óttast ekki myrkrið, ég óttast skjábirtuna sem þykist vera náttúruleg. Ég er ekki hrædd við einsemdina, ég er hrædd við spjallforritið sem samþykkir hana. Ég er ekki hrædd við umheiminn, ég er hrædd við tölvuleikinn sem þykist vera raunveruleikinn.

Tæknin gengur út á að skipuleggja tilveru okkar þar til við hættum að upplifa hana. Þess vegna trúi ég hvorki á hljóðbókina né hugleiðsluappið; ég kaupi ekki loforðið um lestur án lesturs, og eitthvað segir mér að snjallforrit sé vonlaust mótefni gegn kvíða sem annað snjallforrit framleiðir. Líkt og ljósmynd sem kemur í stað minningarinnar sem hún reynir að varðveita, getur skyndilausn við einu vandamáli verið upphafið á stærra vandamáli.

Ég tilheyri kynslóð sem fæddist á netinu og ólst upp á samfélagsmiðlum; kynslóð sem þarf ekki að eignast vini svo lengi sem hún öðlast fylgjendur; kynslóð sem lærði aldrei að fara á stefnumót því henni var kennt að svæpa til hægri og vinstri. Við erum kynslóðin sem hefur það of næs til að flytja að heiman, of kósý til að fara út úr húsi. Við lifum í núinu og erum ekkert að flýta okkur. Við erum vandamál sem þarf ekki að leysa svo lengi sem við hlöðum lausninni niður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Núna er næst!

Bjarney Bjarnadóttir,Jóhanna M. Þorvaldsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.