Viðskipti innlent

Segir ný tíðindi að MS sé boðberi sannleikans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur M. Magnússon er fyrrverandi eiganda Mjólku og síðar Mjólkurbúsins Kú. Hann starfar í dag sem ráðgjafi.
Ólafur M. Magnússon er fyrrverandi eiganda Mjólku og síðar Mjólkurbúsins Kú. Hann starfar í dag sem ráðgjafi. Vísir

Ólafur M. Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og síðar Mjólkurbúsins KÚ, segir alveg ný tíðindi að Mjólkursamsalan sé boðberi sannleikans. Mjólkursamsalan gagnrýndi orð forstjóra Samkeppniseftirlitsins í kostuðu fylgiblaði Fréttablaðsins í gær.

Ólafur stóð árum saman í brúnni hjá Mjólku og KÚ í baráttu við Mjólkursamsöluna. Baráttunni mætti lýsa sem hatrammlegri og minnir Ólafur á að MS hafi verið dæmt á öllum dómstigum fyrir að villa um fyrir Samkeppniseftirlitinu og leyna gögnum.

Pálmar Vilhjálmsson, forstjóri MS, gagnrýndi harðlega í gær að forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefði látið hafa eftir sér í kostuðu fylgiblaðinu að honum hefði verið létt þegar Hæstiréttur staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í vor um brot MS á samkeppnislögum.

Ekki komið nærri bransanum í fjögur ár

„Blað þetta er gefið út á meðan dómsmál Mjólku á hendur Mjólkursamsölunni er til meðferðar fyrir dómstólum. Furðu sætir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli gefa færi á viðtali við sig í slíku kynningarblaði, sem er fjármagnað af einkaaðila þar sem farið er fram með rangfærslur gagnvart samkeppnisaðila sem Samkeppniseftirlitið á að hafa eftirlit með,“ segir í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni og Pálma Vilhjálmssyni.

„Gera verður alvarlegar athugasemdir við þessa umfjöllun og vekur hún upp áleitnar spurningar um hæfi Samkeppniseftirlitsins til að fjalla um málefni Mjólkursamsölunnar.“

Forsíða kynningarblaðsins sem Ólafur kostaði og fylgdi Fréttablaðinu í gær.

Ólafur grípur boltann á lofti og bendir á að hann hafi sjálfur staðið að útgáfu blaðsins. Hann hafi horfið frá mjólkurbransanum fyrir fjórum árum.

„Undirritaður er perónulega útgefandi, ábyrgðarmaður og sá sem greiðir kostnað við útgáfu blaðsins. Undirritaður er ekki keppinautur MS á nokkurn hátt, hætti öllum afskiptum að úrvinnslu á mjólkurvörum fyrir fjórum árum síðan,“ segir Ólafur.

Hann segir mjög mikilvægt að halda til haga sögunni. Að farið sé yfir hvernig staðið hafi verið að samkeppnismálum í mjólkuriðnaði, ekki síst þegar líður að kosningum.

„Það eru ákveðin öfl sem standa vörð um einokun og fákeppni í þessari grein,“ segir Ólafur. Allir viti hvaða flokka hann eigi við.

„Það vita það náttúrulega allir að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa staðið mjög vörð um fákeppni í mjólkuriðnaði, með stuðningi Vinstri grænna.“


Tengdar fréttir

„Ansi ná­lægt því að vera mis­notkun á markaðs­ráðandi stöðu“

Það að Mjólkursamsalan selji erlendum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft á lægra verði en íslenskum matvælafyrirtækjum fer ansi nálægt því að vera misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Hann segir íslenska framleiðendur ekki eiga annarra kosta völ en að kaupa duftið frá MS þar sem innflutningstollar séu meðal þeirra hæstu í heimi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×