Heilsa

„Ég fór eiginlega óvart inn í þetta“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hnefaleikakappinn Davíð Rúnar hefur síðustu ár keppt í ultra hlaupum og segir að þetta sé hin fínasta hugleiðsla.
Hnefaleikakappinn Davíð Rúnar hefur síðustu ár keppt í ultra hlaupum og segir að þetta sé hin fínasta hugleiðsla.

„Þetta er eiginlega mitt lyf, þetta eru einu mómentin sem ég er chillaður í höfðinu. Þetta er mitt zen, ég er eiginlega bara í hugleiðslu í sautján tíma,“ segir hlauparinn og þjálfarinn Davíð Rúnar Bjarnason, sem um helgina tók þátt í krefjandi 112 kílómetra fjallahlaupi í Lúxemborg.

Hækkunin í hlaupinu var um 3.300 metrar og til að setja þetta í samhengi eru vegalengdin um 130 þúsund skref á skrefateljara á heilsuúri.

Svekktur í allt sumar

„Ég fór eiginlega óvart inn í þetta,“ svarar Davíð þegar Rikki spurði hann í Brennslunni hvað hafi fengið hann til að byrja að hlaupa yfir hundrað kílómetra vegalengdir. Ástæðan fyrir því að Davíð fór út til þess að keppa í þessu hlaupi var sú að stærsta keppnishlaupið hans hér heima í ár fór ekki eins og hann hafði planað.

„Ég var svo sár út í sjálfan mig. Ég skráði mig í hlaup í sumar sem átti að vera hundrað mílur, í Hengil. Ég þurfti að stoppa þar í 112 kílómetrum. Það var margt sem að klikkaði og ég bara gat ekki meira þann daginn. Það skiptir ekki máli hvort þú farir fimm kílómetra, fimmtíu eða 150. Ef þú klárar ekki lengdina þá færðu DNF, did not finish.“

Davíð segir að hann hafi verið heima í fílu og grenjandi í marga mánuði yfir þessu, enda svekkjandi að ná að hlaupa 112 kílómetra í keppnishlaupi en fá það ekki skráð af því að hann var skráður í 160 kílómetra keppnina.

„Svo rakst ég á hlaup í akkúrat sömu lengd hjá bróður mínum sem ég gæti þá fengið skráð.“

Aðeins 42 af 130 náðu að klára

Hann keppti svo um helgina og náði að klára svo nú er hann kominn með þessa vegalengd skráða. Hlaupið var þó langt frá því að vera auðvelt.

„Þarna leggur maður af stað fimm mínútur yfir miðnætti. Það er bara svartamyrkur og margt sem getur klikkað. Hausljósið mitt var ekki alveg nógu gott svo ég sá eiginlega ekki neitt, grenjandi rigning og var inni í skógi svo þú sérð eiginlega ekki neitt nema rétt fyrir framan fæturnar á þér,“ útskýrir Davíð.

„Ég hélt svolítið aftur af mér um nóttina því ég sá ekki nógu mikið. Ég vildi eiga eitthvað inni þegar að það myndi birta til og það var klárlega rétt hjá mér.“

Á síðari hluta hlaupsins fór Davíð fram hjá mjög mörgum hlaupurum sem voru alveg búnir á því.

„Það byrjuðu 130 en það kláruðu bara 42 og ég endaði þarna tólfti og var mjög ánægður með það. Ég var bara mjög ferskur. Hraðasti kílómeterinn var síðasti.“

Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Svekktur í allt sumar yfir því að ná ekki að klára hlaupið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×