Viðskipti innlent

Leið­réttur launa­munur kynjanna 4,1 prósent

Eiður Þór Árnason skrifar
Samstöðufundur við Arnarhól á Kvennafrídeginum árið 2018.
Samstöðufundur við Arnarhól á Kvennafrídeginum árið 2018. Vísir/vilhelm

Launamunur kynjanna hefur dregist saman frá árinu 2010 en kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar. Á sama tíma hafa áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun minnkað.

Samkvæmt nýrri rannsókn Hagstofu Íslands voru konur að jafnaði með 4,3% lægri laun en karlar árið 2019 samanborið við 6,2% árið 2010, sé tekið mið af leiðréttum launamun. Óleiðréttur launamunur var 17,5% árið 2010 en 13,9% árið 2019.

Ef horft er til atvinnutekna, þar sem ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma og starf, voru konur að jafnaði með 32,9% lægri atvinnutekjur en karlar árið 2010 en 25,5% árið 2019.

Dróst enn meira saman í fyrra

Árið 2020 hafði munurinn dregist enn meira saman en rétt er að setja fyrirvara við niðurstöður þær niðurstöður vegna áhrifa heimsfaraldursins á íslenskan vinnumarkað. Árið 2020 var leiðréttur launamunur 4,1% og óleiðréttur launamunur að jafnaði 12,6% en munur á atvinnutekjum karla og kvenna var 23,5%.

Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti að meðaltali fái sambærileg laun. Þar er til að mynda tekið tillit til starfs, atvinnugreinar og menntunarstigs og reynt að einangra áhrif þeirra breyta.

Óleiðréttur launamunur sýnir hins vegar samanburð á meðaltímakaupi karla og kvenna og tekur ekki tillit til þátta á borð við starf og menntun sem geta skýrt mishá laun.

Samkvæmt Hagstofunni vinna karlar að meðaltali lengri vinnutíma en konur og skiptir þá miklu að þeir hafi hlutfallslega fleiri yfirvinnustundir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×