Skoðun

Gamalt fólk má líka velja

Svandís Svavarsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson skrifa

Hvernig skipuleggjum við þjónustu við eldra fólk á næstu áratugum? Munum við geta notað sömu lausnir og áður? Getum við búist við því að þau sem þurfa þjónustu hugsi eins og hafi sömu væntingar til þjónustu og þau sem voru í sömu sporum fyrir 20 árum?

Auðvitað eru ekki einföld svör við þessum spurningum og þær eru ekki já eða nei spurningar. Augljóst er að lausnir á verkefnum hljóta alltaf að miðast við samtímann og þann hóp sem á að njóta góðs af á hverjum tíma. Eitt sinn var sagt að við ættum ekki að byggja þjónustu fyrir eldra fólk eins og við eða foreldrar okkar gætu hugsað sér hana, heldur eins og við gætum ímyndað okkur að barnabörnin okkar vildu hafa hana.

Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á þjónustu heim. Á dagþjónustu, á helgarþjónustu og á þjónustu eftir þörfum. Við þurfum að gera ráð fyrir að hjúkrunarheimilin geti verið margs konar og með þjónustu fyrir fjölbreytt fólk með fjölbreyttar þarfir. Þau geti verið lítil og stór. Við þurfum jafnvel að gera ráð fyrir að fólk geti búið þar tímabundið og við þurfum að tryggja að áður en fólk velur að flytja á hjúkrunarheimili hafi því staðið til boða fullnægjandi þjónusta heima, á hæfingarstöðvum og dagdeildum.

Við í Vinstri grænum teljum að samtalið um hvernig við byggjum þjónustu til framtíðar eigi ekki bara að fara fram í stjórnkerfinu, heldur líka við notendurna sjálfa. Við getum ekki gert ráð fyrir að jafn fjölbreyttur hópur og eldra fólk framtíðarinnar verður muni allt sækjast eftir sömu lausnunum. Það þarf að gera ráð fyrir að fólk vilji hafa val. Að það geti fengið þjónustu þegar því hentar, á sínum forsendum, þar sem því hentar. Nýlegt verkefni á Akureyri um sveigjanlega dagþjálfun sýnir okkur að þegar fólki stendur til boða að fá aukna þjónustu áður en það flytur á hjúkrunarheimili, þá velur það þá kosti fremur. Við þurfum líka að halda áfram að auka samstarf sveitarfélaga og ríkis um mismunandi þjónustuþætti. Við getum ekki látið flækjustig milli þeirra sem bera ábyrgð á þjónustunni verða að hindrun fyrir notendur.

Fólk er mismunandi með mismunandi þarfir og væntingar. Hugsum þjónustu við eldra fólk á þeirra forsendum. Tryggjum eldra fólki val.

Ólafur Þór Gunnarsson er þingmaður og skipar þriðja sæti á lista VG í Suðrvesturkjördæmi. Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra og skipar efsta sæti lista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×