Handbolti

Viktor Gísli sagður á leið til Frakk­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli í leik með íslenska landsliðinu gegn Noregi á HM í Egyptalandi fyrr á þessu ári.
Viktor Gísli í leik með íslenska landsliðinu gegn Noregi á HM í Egyptalandi fyrr á þessu ári. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson er sagður vera á leið til HBC Nantes í Frakklandi. Viktor Gísli er í dag samningsbundinn danska úrvalsdeildarfélaginu GOG.

Þetta kemur fram á franska miðlinum Ouest France en Handbolti.is greindi fyrst frá hérlendis. Í frétt Ouest France segir að Nantes hafi samið við tvo markverði sem munu ganga til liðs við félagið sumarið 2022.

Ásamt hinum Viktori Gísla ku Ivan Pešić, 32 ára gamall markvörður frá Króatíu sem leikur með Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi, vera á leið til HBC Nantes næsta sumar. Eiga þeir að fylla skarð Emil Nielsen frá Danmörku sem hefur varið mark franska félagsins undanfarin tvö ár. Þykir nær öruggt að hann gangi til liðs við Barcelona næsta sumar.

Hinn 21 árs gamli Viktor Gísli var fyrst orðaður við Nantes í janúar á þessu ári. Svo virðist sem þeir orðrómar séu nú að verða að veruleika. Nantes endaði í 3. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð ásamt því að komast alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Viktor Gísli var aðeins 16 ára gamall þegar hann þreytti frumraun sína með Fram í efstu deild karla hér á landi. Það var svo um vorið 2019 sem hann samdi við GOG í Danmörku þar sem hann hefur staðið sig með sóma. Nú virðist sem það sé komið að næsta skrefi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.