Viðskipti innlent

Gauknum lokað skyndilega vegna kara­okí­þyrstra Co­vid-sjúk­linga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Veitingamönnum á Gauknum barst til eyrna að covid-smitaðir ætluðu að mæta á karaokí-kvöld á barnum. 
Veitingamönnum á Gauknum barst til eyrna að covid-smitaðir ætluðu að mæta á karaokí-kvöld á barnum.  vísir/vilhelm

Skemmtistaðurinn Gaukurinn verður lokaður í kvöld eftir að stjórnendum staðarins barst það til eyrna að karaokí þyrstir Covid-sjúklingar hygðust mæta á karaokí-kvöld, sem átti að vera á staðnum í kvöld. Þetta staðfestir rekstrarstjóri Gauksins í samtali við fréttastofu.

„Við fengum úr nokkrum áttum að það væri þrjátíu manna hópur af skiptinemum bæði úr HÍ og HR sem ætlaði að koma til okkar á karaokí-kvöldið þrátt fyrir að vita að einhverjir í hópnum væru smitaðir af Covid,“ segir Magnús Bjarni Gröndal, rekstrarstjóri staðarins í samtali við fréttastofu.

Hann segir að hann hafi þá líka fengið símtal frá lögreglunni sem hafi heyrt það sama og vildi vara hann við.

„Þeir ætluðu að koma og vera fyrir utan hjá okkur í kvöld og athuga hvort fólkið væri á sóttkvíar- eða einangrunarlista. Við vorum samt bara ekki tilbúin að taka þessa áhættu og ákváðum að loka, til að leggja ekki heilsu og líf starfsfólks okkar og gesta í hættu,“ segir Magnús.

„Okkur líður eiginlega bara eins og við höfum fengið sprengjuhótun. Þetta er auðvitað líka svakalegt högg fyrir reksturinn en við erum að horfa fyrir endann á þessari bylgju og erum ekki tilbúin, sem bar, að leggja samfélaginu ekki lið og koma í veg fyrir frekari smit þegar við vitum af nokkrum svona fávitum,“ segir Magnús.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×