Sanngjarnt tap í Svartfjallalandi

Benedikt Grétarsson skrifar
Elvar Már Friðriksson var besti maður Íslands í kvöld
Elvar Már Friðriksson var besti maður Íslands í kvöld Vísir/Bára

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði gegn Svartfjallalandi í sínum fyrsta leik í annarri umferð forkeppni HM 2023. Lokatölur urðu 69-83 en staðan í hálfleik var 33-39, Svartfellingum í vil. Þessi tvö lið leika ásamt Danmörku í þessum undanriðli og fara tvö lið áfram í næstu umferð. Ísland mætir Danmörku á morgun en liðin þrjú klára alla leikina í riðlinum á næstu dögum.

Elvar Már Friðriksson var stigahæstur í islenska liðinu með 16 stig og Kári Jónsson skoraði níu stig.

Botnfrosinn sóknarleikur í fyrsta leikhluta.

Fyrri hálfleikur var sveiflukenndur hjá íslenska liðinu, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fyrsti leikhluti var stórfurðulegur áhorfs en þá var sóknarleikur Íslands gjörsamlega botnfrosinn og ekkert gekk upp. Sem betur fer voru heimamenn ekkert í rosalegum gír heldur og það hélt möguleikanum opnum.

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði þrist og fékk vítaskot að auki strax í upphafi leik en svo skoraði Ísland ekki stig í einhverjar fimm mínútur. Menn hreyfðu sig hægt og hikandi og Svartfellingar áttu í engum vandræðum með að verjast fyrirsjáanlegum sóknarleik Íslands.

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 8-16, Svartfellingum í vil og það var i raun ágætlega sloppið.

Sóknarleikurinn reis upp frá dauðum í öðrum leikhluta en þá hrukku Svartfellingar sömuleiðis í sóknargírinn og fóru að skora mikið með langskotum. Ísland minnkaði muninn í fjögur stig og á þeim kafla vöru eldsnöggir bakverðir okkar að gera stórum leikmönnum heimamanna lífið leitt.

Tryggvi Snær Hlinason byrjaði leikinn afar illa, réð ekkert við Marko Todorovic varnarlega og var kominn með tvær villur mjög snemma. Hann fékk þriðju villuna í upphafi annars leikhluta en þá kviknaði á sveitastráknum sterka. Tryggvi fór að þora meira sóknarlega og náði m.a. einni fallegri troðslu.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 33-39 og leikurinn ennþá galopinn þrátt fyrir götótta frammistöðu.

Slæmi kaflinn lifir góðu lífi

Íslensku strákarnir mættu vel gíraðir í seinni hálfleikinn og Kári Jónsson skoraði glæsilegan þrist til að jafna leikinn í 50-50. Lokakafli þriðja leikhluta var hins vegar illa útfærður og Svartfellingar héldu inn í fjórða leikhluta með sjö stiga forystu, 53-60.

Leikurinn var áfram jafn og útlit fyrir spennandi lokakafla. Í stöðunni 64-69 kemur hins vegar vendipunktur leiksins. Þá skoraði Nikola Ivanovic erfiðan en afar fallegan þrist sem gjörsamlega kveikti neista í heimamönnum allt til loka leiksins.

Svartfellingar skoruðu hvorki meira né minna en 14 stig í röð og gerðu út um leikinn. Munurinn varð mestur 19 stig en ágætur sprettur Íslendinga undir lokin varð til þess að Svartfellingar unnu sanngjarnan og öruggan sigur, 69-83.

Af hverju vann Svartfjallaland leikinn?

Það er ekki hægt að kenna mönnum að vera stórir og það er einfaldlega mjög erfitt að glíma endalaust við leikmenn sem gnæfa yfir þig. Svartfellingar voru með átta leikmenn yfir tvo metra á meðan Íslendingar voru með tvo. Kannski svolítil einföldun að stilla þessu svona upp en heimamenn fengu t.a.m. urmul vítaskota þegar lágvaxnir leikmenn Íslands sáu engan annan kost í stöðunni en að brjóta á þeim.

Hverjir stóðu upp úr?

Elvar Már Friðriksson átti frábæra kafla en varð eðlilega þreyttur þegar á leið. Ægir Þór Steinarsson stýrði leiknum ágætlega og endaði með fjórar stoðsendingar. Kristinn Pálsson skilaði fínu framlagi með fjögur stig og fimm fráköst. Raggi Nat var ekki að setja niður vítin en skoraði þó tvö stig og tók sex fráköst.

Tryggvi Snær Hlinason náði sér aldrei á strik, hvorki varnar-né sóknarlega. Okkar besti maður þarf að skila meira en átta stigum og fjórum fráköstum. Tryggvi er einfaldlega kominn það langt á sínum ferli að það er ekki ósanngjörn krafa.

Tölfræði sem vakti athygli

Þrátt fyrir hæðamuninn tók íslenska liðið 34 fráköst gegn 38 fráköstum Svartfellinga. Heimamenn skutu 26 vítaskotum í leiknum, sem er fullmikið en nýtingin hjá íslenska liðinu var skelfileg á vítalínunni. Ísland var 8/18 í vítaskotum(44%) og það er ekki nógu gott.

Hvað gerist næst?

Frændur vorir og fyrrum kúgarar, Danir bíða í næsta leik strax á morgun. Sá leikur er mjög mikilvægur fyrir framhaldið og þar verða strákarnir að sækja sigur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira