Viðskipti innlent

Brynhildur tekur við viðskiptaþróun hjá Íslandsstofu

Samúel Karl Ólason skrifar
Brynhildur Georgsdóttir.
Brynhildur Georgsdóttir.

Brynhildur Georgsdóttir hefur verið ráði forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu. 

Brynhildur er lögfræðingur með MBA-gráðu og býr yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Síðustu ellefu árin starfaði hún hjá Arion banka þar sem hún var meðal annars útibússtjóri í tilraunaútibúi um aukna rafræna þjónustu og forstöðumaður rekstraráhættu bankans.

Í tilkynningu segir að hún hafi mikla reynslu af þróun stafrænna lausna, mótun á þjónustu við viðskiptavini, innri umbótaverkefnum, markmiðasetningu og árangursmælingum.

Brynhildur byrjaði að vinna hjá Íslandsstofu í nóvember í fyrra og tók þá að sér hönnun og innleiðingu heimstorgs Íslandsstofu. Það veitir þjónustu við íslensk fyrirtæki vegna starfsemi í þróunarríkjum og víðar.

Viðskiptaþróun vinnur að þróun fjölbreyttrar þjónustu Íslandsstofu við fyrirtæki og ber ábyrgð á Útflutningsstefnu Íslands, innleiðingu hennar og mælikvörðum. Í áðurnefndri tilkynningu segir ennfremur að sviðið sinni alþjóðlegum samskiptum og haldi utan um innri og ytri umbótaverkefni Íslandsstofu, meðal annars rekstrartengd mál.

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda og hefur það hlutverk að greiða fólki og fyrirtækjum leið á erlenda markaði og markaðssetja Ísland til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×