Handbolti

Björgvin Hólmgeirs hefur ekki tíma fyrir handboltann í vetur og er kannski alveg hættur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik með Stjörnunni síðasta vetur.
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik með Stjörnunni síðasta vetur. Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn eru búnir að missa einn sinn besta leikmann í handboltaliði félagsins eftir að Björgvin Þór Hólmgeirsson ákvað að hann verði ekki með á komandi tímabili.

Björgvin var byrjaður að æfa en hefur nú tekið þá ákvörðun að spila ekki í vetur.

„Kannski er ég kominn í ótímabundið frí eða alveg hættur. Skórnir eru að minnsta kosti komnir upp í hillu hvort sem það verður um lengri eða skemmri tíma. Maður á kannski aldrei að segja aldrei. Ég verð að minnsta kosti ekki með í vetur,“ sagði Björgvin Þór við handbolta.is.

Björgvin er að eignast sitt þriðja barn í september en hann er 33 ára gamall.

Björgvin átti mjög gott tímabil með Stjörnunni sem fór alla leið í undanúrslit úrslitakeppninnar í fyrsta sinn í sögu karlaliðs félagsins.

Björgvin var næstmarkahæsti leikmaður liðsins, með 4,0 mörk og 2,2 stoðsendingar í leik. Hann nýtti 57 prósent skota sinn í leikjunum 26 á Íslandsmótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×