Viðskipti innlent

Tvöfalt fleiri hótelgistinætur en í fyrra

Eiður Þór Árnason skrifar
Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu.
Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/vilhelm

Greiddum gistinóttum á öllum tegundum gististaða fjölgaði um 64 prósent í júní síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra. Þar af fjölgaði gistinóttum á hótelum um 108 prósent milli ára, um 62 prósent á gistiheimilum og um 37 prósent á öðrum tegundum skráðra gististaða á borð við tjaldsvæði og orlofshús.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar. Ef borið er saman við júní 2019 hefur gistinóttum hins vegar fækkað um 57 prósent en kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif rekstur gististaða. Þar af nemur fækkunin um 55 prósent á hótelum, um 43 prósent á gistiheimilum og um 45 prósent á öðrum tegundum gististaða.

Allsstaðar aukning nema á Austurlandi

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 479 þúsund í júní en voru um 293 þúsund í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 46 prósent gistinátta, eða um 223 þúsund, en erlendar 54 prósent eða 256.000.

Framboð hótelherbergja í júní jókst um sex prósent frá júní 2020. Herbergjanýting á hótelum var 40,3 prósent og jókst um 19,5 prósentustig frá fyrra ári.

Hótelgistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum milli ára nema á Austurlandi, þar sem hún dróst saman um þrjú prósent. Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinætur fjórfölduðust og fóru úr 18.600 í 74.200 á milli ára.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×