Viðskipti innlent

Björn Ingi hlýtur ekki náð fyrir augum Hæstaréttar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björn Ingi Hrafnsson á upplýsingafundi almannavarna.
Björn Ingi Hrafnsson á upplýsingafundi almannavarna. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað því að taka fyrir mál fjölmiðlamannsins Björns Inga Hrafnssonar gegn þrótabúi Pressunnar ehf. Björn Ingi hafði óskað eftir málskotsleyfi eftir að Landsréttur dæmdi hann til að greiða 80 milljóna skuld til þrotabúsins.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Vesturlands sem hafði fallist á kröfur Pressunnar ehf. um að veðsetningum á eignum félagsins, sem gerðar voru með lánasamningi milli Pressunnar ehf. og Björns Inga auk tryggingabréfs, yrði rift.

Um var að ræða allsherjarveð í Pressunni, auk vörumerkjanna og vefsíðanna Eyjan.is, Bleikt.is, 433.is, sem og útgáfurétt Pressunnar. Þá var þess krafist að yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot árið 2017, á 80 milljóna skuld Björns Inga við Pressuna yrði rift. Héraðsdómur og Landsréttur féllust einnig á það.

Björn Ingi vildi skjóta málinu til Hæstaréttar sem tók fyrir málskotsbeiðnina í gær. Var henni hafnað en í ákvörðun Hæstaréttar segir að ekki sé hægt að líta svo á úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Þá verði ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×