Körfubolti

Hörmungarlokakafli skilaði fyrsta tapinu í 17 ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Durant hefur átt betri leiki.
Durant hefur átt betri leiki. Gregory Shamus/Getty Images

Karlalandslið Bandaríkjanna í körfubolta þurfti að þola 83-76 tap fyrir Frakklandi í fyrstu umferð A-riðils á Ólympíuleikunum. Bandaríkin hafa ekki tapað leik á Ólympíuleikum síðan 2004.

Bandaríska liðið er skipað eingöngu leikmönnum úr NBA-deildinni vestanhafs, þar á meðal eru Kevin Durant, Jrue Holiday, Damian Lillard, Draymond Green, Khris Middleton og fleiri. Þá þjálfar Gregg Popovich, sem stýrir San Antonio Spurs, liðinu með Steve Kerr, þjálfara Golden State Warriors, sér til aðstoðar.

Bandaríska liðið var sterkara framan af í jöfnum leik liðanna. Átta stiga munur var í hálfleik, 45-37, fyrir Bandaríkin. Frakkar voru sterkari í þriðja leikhluta þar sem þeir skoruðu 25 stig gegn aðeins 11 stigum Bandaríkjanna og voru því 62-56 yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta leiksins.

Bandaríkjamenn svöruðu fyrir sig og voru með öll völd framan af fjórða leikhlutanum, liðið skoraði 18 stig gegn fimm, og var með 74-67 forystu þegar skammt var eftir af leiknum. Þá hrundi hins vegar leikur liðsins, Frakkar gengu á lagið og skoruðu 16 af síðustu 18 stigum leiksins.

Frakkar unnu því frækinn 83-76 sigur á stjörnum prýddu liði Bandaríkjanna sem hefur ekki tapað leik á Ólympíuleikum síðan í Aþenu árið 2004.

Evan Fournier, leikmaður Boston Celtics, fór mikinn fyrir Frakka og skoraði 28 stig í leiknum. Félagi hans Rudy Gobert, úr Utah Jazz, skoraði 14 stig og tók níu fráköst. Jrue Holiday var atkvæðamestur Bandaríkjamanna með 18 stig. Bam Adebayo var með tvöfalda tvennu; tólf sti og tíu fráköst, Kevin Durant gerði tíu stig og Damian Lillard skoraði ellefu.

Sigrar hjá Ítalíu, Tékklandi og Ástralíu

Þrír aðrir leikir voru á dagskrá í dag. Tékkland vann Íran með sex stiga mun, 84-78, í A-riðlinum. Bandaríkin eru því á botni riðilsins með eitt stig, líkt og Íran, en Frakkar og Tékkar eru með tvö.

Í B-riðli vann Ítalía sterkan 92-82 sigur á Þýskalandi og Ástralía rúllaði yfir Nígeríu, 84-65. Þrír riðlar eru á mótinu en keppt er í C-riðlinum á morgun. Tvö efstu lið hvers riðils fara í 8-liða úrslit auk þeirra tveggja með bestan árangur í þriðja sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.