Handbolti

Kemur til Ísa­fjarðar eftir að hafa keppt á Ólympíu­leikunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kenya Kasahara í leik gegn íslenska landsliðinu á HM 2019. Hann mun spila með Herði Ísafirði í vetur.
Kenya Kasahara í leik gegn íslenska landsliðinu á HM 2019. Hann mun spila með Herði Ísafirði í vetur. TF-Images/Getty Images

Handknattleiksliðið Hörður Ísafjörður hefur heldur betur styrkt sig fyrir komandi tímabil í næstefstu deild hér á landi. Liðið hefur sótt þrjá erlenda leikmenn, þar af einn frá Japan sem mun taka þátt á Ólympíuleikunum sem fara af stað síðar í dag.

Frá þessu var greint á Facebook-síðu félagsins en þar segir að þeir Mikel Amilibia frá Spáni, Levente Morvaj frá Ungverjalandi og Kenya Kasahara frá Japan myndu leika með félaginu í vetur. Amilibia og Morvaj sömdu til tveggja ára.

Stærsta nafnið er Kasahara en hann er einn af lærisveinum Dags Sigurðssonar í japanska landsliðinu. Mun hann taka þátt á Ólympíuleikunum í heimalandinu og ganga síðan til liðs við Ísafjarðarliðið. Um er að ræða stóran og sterkbyggðan 33 ára gamlan línumann sem lék einnig með Japan á heimsmeistaramótinu 2019.

Amilibia er 23 ára gamall og leikur í stöðu hægri skyttu. Hann á að baki fjölda leikja fyrir yngri landslið Spánar. Morvaj er 21 árs gamall vinstri hornamaður sem var einkar efnilegur á sínum yngri árum en er að finna fjöl sína að nýju.

Hörður féll úr leik í umspili um sæti í Olís-deild karla gegn Víking á síðustu leiktíð. Það er ljóst að félagið ætlar ekki að endurtaka leikinn og markmiðið er Olís-deild karla haustið 2022.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.