Viðskipti innlent

Nýr Land­spítali 16,3 milljörðum dýrari

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala munu kosta meira en upphaflega var gert ráð fyrir.
Framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala munu kosta meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Vísir/Vilhelm

Ráðgert er að kostnaður við nýbyggingar Landspítalans á Hringbraut muni nema 79,1 milljarði króna þegar allt er talið. Það er 16,3 milljörðum meira en kostnaðarmat gerði ráð fyrir árið 2017, ef miðað er við verðlag síðasta desembermánaðar.

Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag, þar sem vísað er í svar Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um kostnað við byggingu nýs spítala við Hringbraut.

Haft er eftir Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra opinbera hlutafélagsins Nýs Landspítala, að aukið umfang verkefnisins skýri kostnaðaraukninguna. Ákveðið hafi verið að stærsta bygging verkefnisins, meðferðarkjarninn, skyldi stækkaður úr 53 þúsund fermetrum í 70 þúsund.

Það hafi verið gert í kjölfar endurrýni á ferlum starfseminnar og vegna aukinnar kröfu um að húsið gæti staðið af sér öflugri jarðskjálfta en almennar kröfur í byggingarreglugerðum segja til um. Þá hafi veggir verið gerðir þykkari og meira af stáli notað til byggingarinnar. Eins er haft eftir Gunnari að ákveðið hafi verið að stækka gatnagerðarverkefnið við spítalann, meðal annars með því að bæta 200 bílastæða kjallara undir svæðið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×