Húsnæðið sem um ræðir er tæplega þrettán þúsund útleigufermetrar af vönduðu verslunarhúsnæði. Þessar fasteignir eru að Háholti 13-15 í Mosfellsbæ, Dalbraut 1 á Akranesi, Austurvegi 1-5 á Selfossi og Hafnargötu 2 á Reyðarfirði.
Eignirnar eru í útleigu til fjölmargra öflugra leigutaka en þar ber helst að nefna Krónuna sem stendur fyrir tæplega 50 prósent leigutekna af húsnæðinu. Krónan mun gera fimmtán ára leigusamninga við Reiti á Dalbraut, Austurvegi og Hafnargötu. Aðrir leigutakar eru meðal annars Rúmfatalagerinn, Mosfellsbakarí, apótek, Sveitarfélagið Fjarðabyggð, Pizzan, Penninn, Mannvit og Lindex.
Leigutekjur á ári nema um 320 milljónum króna og meðaltími leigusamninga er tæp tíu ár. Kaupin leiða til þess að áætlaður rekstrarhagnaður Reita hækkar um 250 milljónir króna á ársgrundvelli.
Kaupsamningurinn er gerður með öllum hefðbundnum fyrirvörum, svo sem niðurstöðum áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármögnun viðskiptanna. Þá er forkaupsréttur á húsnæðinu að Austurvegi á Selfossi sem þarf að aflétta fyrir kaupin.