Viðskipti innlent

Rit­stjóri Markaðar Frétta­blaðsins hluta­fjár­eig­andi í 13 fé­lögum í Kaup­höllinni

Jakob Bjarnar skrifar
Hörður Ægisson hefur verið einn öflugasti viðskiptablaðamaður landsins um árabil. Hann segir níu milljóna króna hlutafjáreign sína óverulega en samkvæmt siðareglum Blaðamannafélags Íslands er blaðamönnum óheimilt að fjalla um málefni sem snerta persónulega hagsmuni þeirra með beinum hætti.
Hörður Ægisson hefur verið einn öflugasti viðskiptablaðamaður landsins um árabil. Hann segir níu milljóna króna hlutafjáreign sína óverulega en samkvæmt siðareglum Blaðamannafélags Íslands er blaðamönnum óheimilt að fjalla um málefni sem snerta persónulega hagsmuni þeirra með beinum hætti.

Hörður Ægisson, sem er ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu og einn helsti viðskiptablaðamaður landsins um árabil, er skráður fyrir níu milljóna króna hlutafjáreign í 13 félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Kjarninn greinir frá þessu í ítarlegu máli en Hörður á meðal annars fimm milljóna króna hlut í Arionbanka og eina milljón í Marel. Þá á hann einnig hlut í Kviku, Icelandair, Reitum og Brimi.

Skýrt er tilgreint í siðareglum BÍ að blaðamenn fjalli ekki um neitt það sem snýr beint að persónulegum hagsmunum þeirra. Í fimmtu grein segir: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.“

Í frétt Kjarnans er tilgreint að Hörður hafi hvergi sparað sig í að fjalla um félög sem hann á í en í samtali við miðilinn segir Hörður hlutabréfaeign sína óverulega og ekkert í siðareglum Fréttablaðsins kveði á um að starfsmenn eigi að upplýsa um eign sem þessa.

Vísir reyndi að ná í Jón Þórisson ritstjóra Fréttablaðsins með það fyrir augum að bera undir hann álitaefni í máli þessu en án árangurs. En í Kjarnanum segir hann í svari við fyrirspurn miðilsins að blaðamenn Fréttablaðsins skuli hafa siðareglur BÍ í heiðri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×