Körfubolti

NBA dagsins: Stjarna Atlanta steig á dómarann og gaf Middleton sviðsljósið

Sindri Sverrisson skrifar
Trae Young meiddist á ökkla í leiknum við Milwaukee.
Trae Young meiddist á ökkla í leiknum við Milwaukee. Getty/Curtis Compton

Það hafði sín áhrif á einvígi Atlanta Hawks og Milwaukee Bucks að Trae Young, stjarna Atlanta, skyldi meiðast með heldur óvenjulegum hætti í leik liðanna í nótt. Milwaukee vann leikinn 113-102 eftir stórleik Khris Middleton.

Í NBA dagsins hér á Vísi má sjá þegar Young steig óvart aftur fyrir sig á dómara með þeim afleiðingum að hann meiddist í ökkla. Atlanta hafði haft forystuna svo til allan leikinn þegar Young meiddist, rétt fyrir lok þriðja leikhluta, en hann skoraði aðeins þrjú af 35 stigum sínum í lokaleikhlutanum.

„Þetta er aumt núna. Ég finn til og þetta er svekkjandi. Ég fékk einhverja meðhöndlun og fæ frekari meðhöndlun [í dag]. Það er allt og sumt sem hægt er að gera núna,“ sagði Young sem vonast til að honum líði betur í fjórða leik einvígisins, annað kvöld. Meiðsli hans og svipmyndir úr leiknum í nótt má sjá hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 28. júní

Milwaukee komst í 2-1 í einvíginu og það er að mestu Middleton að þakka en hann skoraði 20 stig í fjórða leikhluta, þremur fleiri en allt Atlanta-liðið til samans. Alls skoraði Middleton 38 stig og hefur ekki skorað fleiri í leik í úrslitakeppni.

Giannis Antetokounmpo skoraði 33 stig og tók 11 fráköst líkt og Middleton. Danilo Gallinari var næststigahæstur í liði Atlanta, á eftir Young, með 18 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×