Viðskipti innlent

Áttföld eftirspurn eftir hlutum í Play

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsemi Play hófst í vikunni með fyrstu áætlunarflugferðinni til London. Hlutafjárútboði sem hófst í gær lauk nú síðdegis.
Starfsemi Play hófst í vikunni með fyrstu áætlunarflugferðinni til London. Hlutafjárútboði sem hófst í gær lauk nú síðdegis. Vísir/Vilhelm

Um 4.600 áskriftir bárust fyrir um 33,8 milljarða króna í hlutafjárútboði flugfélagsins Play sem lauk nú klukkan 16:00 í dag. Það var áttfalt meiri eftirspurn en framboð var af hlutum í útboðinu.

Alls voru boðnir út 221.906.800 nýir hlutir í Fly Play hf. sem námu um 4,3 milljörðum króna. Tveir áskriftarmöguleikar voru í boði sem voru ólíkir hvað varðaði stærð áskrifta og úthlutun. Þær bárust bæði frá almenningi og fagfjárfestum, að því er segir í tilkynningu frá Arctica Finance sem annaðist útboðið ásamt Arion banka.

Í tilboðsbók A bárust áskriftir fyrir samtals 6,7 milljarða króna og var útboðsgengi 18 krónur á hlut. Í tilboðsbók B bárust áskriftir fyrir samtals 27,0 milljarða króna og var endanlegt útboðsgengi 20 krónur á hlut.

Stjórn Play ætlar nú að fara yfir áskriftirnar sem bárust í útboðinu og taka afstöðu til þeirra. Niðurstaða varðandi úthlutun á að liggja fyrir ekki síðar en í lok dags 28. júní. Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er áætlaður mánudaginn 5. júlí og ættu áskrifendur þá að fá hluti sína ekki síðar en 9. júlí. 

Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Play á Nasdaq First North er áætlaður 9. júlí sömuleiðis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×