Nýtt íslenskt flugfélag er mætt að landgöngum Leifsstöðvar. Í flugstöðinni var upphafið markað með því að þeir Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, klipptu saman á borða og var fagnað með lófataki, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.

En það var ekki bara verið að fagna fyrsta fluginu heldur einnig nýju hlutafjárútboði, sem hófst í dag, en félagið verður formlega skráð á markað hérlendis eftir tvær vikur.
„Risastór dagur, í öllum skilningi þess orðs,“ segir Birgir.
Og svo var byrjað að innrita farþegana. Starfsmenn Play eru þegar orðnir um tvöhundruð talsins. Þar af eru um eitthundrað flugliðar, og nær allir fyrrverandi starfsmenn Wow Air, en flugstjóri í þessari fyrstu ferð var Siggeir Siggeirsson.

„Wow var auðvitað frábært fyrirtæki og kannski mögulega villtist aðeins af leið, eins og Skúli Mogensen hefur af mikilli auðmýkt viðurkennt sjálfur.
Við ætlum að reyna að gera réttu hlutina og forðast þá röngu. Við ætlum ekki að fara í þessi löngu flug. Við ætlum ekki að fara til Indlands og við ætlum ekki að fara með breiðþoturnar til Los Angeles og slíkt. Þannig að við ætlum að einbeita okkur að því sem við vitum að virkar,“ segir Birgir.
Og þegar ekið var frá flugstöðinni fékk Play-þotan sérstaka heiðursbunu frá flugvallarslökkviliðinu. Meðgöngutími flugfélagsins er annars orðinn býsna langur, 27 mánuðir, en það er sá tími sem liðinn er frá gjaldþroti Wow Air.

Forstjórinn segir að eingöngu verði reknar þotur af Airbus A320 línunni og farið verði rólega í uppbyggingu.
„Við ætlum okkur að vaxa upp í fimmtán flugvélar 2025 og gera það í yfirveguðum og öguðum skrefum,“ segir Birgir.
Þessi fyrsta flugferð í dag var til Stanstead-flugvallar við London. Félagið hefur þegar boðað flug til níu áfangastaða í Evrópu og á næsta ári er stefnt á Ameríkuflug.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá fyrsta flugtakið í dag í lengri útgáfu:
Hér má sjá ávörpin þegar klippt var á borðann í Leifsstöð: