Körfubolti

„Hef áhyggjur af Keflavík en neita að trúa því öðru en þeir vinni allavega einn leik“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í Keflavík verða að vinna Þór Þ. í kvöld ef þeir ætla að möguleikanum á að verða Íslandsmeistarar á lífi.
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í Keflavík verða að vinna Þór Þ. í kvöld ef þeir ætla að möguleikanum á að verða Íslandsmeistarar á lífi. vísir/bára

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur og einn sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds, neitar að trúa því að Keflavík vinni ekki leik gegn Þór Þ. í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.

Þórsarar eru 2-0 yfir í einvíginu og geta tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með sigri í Keflavík í kvöld.

Í samtali við Vísi segist Benedikt frekar hallast að sigri Keflavíkur í kvöld. Fyrir einvígið gegn Þór hafði Keflavík unnið átján leiki í röð en liðið er nú komið í afar erfiða stöðu.

„Þetta er búið að vera svo ótrúlegt tímabil og ótrúlegir hlutir eins og að Þórsarar sópi Keflvíkingum gætu alveg gerst en ég er nú á því að Keflavík láti það ekki gerast. Ég spái allavega Keflavík sigri í kvöld,“ sagði Benedikt.

Verða alltaf betri og betri

Fyrir tímabilið voru ekki miklar væntingar gerðar til Þórsara og þeim var meðal annars spáð falli. En núna eru þeir bara einum sigri frá því að verða Íslandsmeistarar.

„Þetta er alvöru lið sem er búið að vera gott í allan vetur. Þetta er vel samsett lið og þeir hafa ekki þurft að gera neinar breytingar. Þeir vaxa saman og verða alltaf betri og betri,“ sagði Benedikt.

Þórsarar lentu í 2. sæti Domino's deildarinnar og eru nú bara einum sigri frá því að verða Íslandsmeistarar.vísir/Bára

Hann segir að spilamennska Keflvíkinga í úrslitaeinvíginu hafi komið sér á óvart þótt liðið hafi ef til vill ekki náð alvöru flugi í úrslitakeppninni allri.

„Ég átti von á sterkara Keflavíkurliði. Þegar maður horfði á þá í átta liða úrslitunum fannst manni þeir ekki spila sinn besta bolta en þeir voru aðeins betri í undanúrslitunum,“ sagði Benedikt en Keflavík vann bæði Tindastól og KR 3-0.

Hafa mætt ofjörlum sínum

„Maður hélt að þeir myndu bæta við sig snúning í úrslitunum en þeir virðast bara hafa mætt ofjörlum sínum í þessum tveimur leikjum. Keflavík vann báða leikina gegn Þór í deildakeppninni og urðu síðan langbesta lið landsins í langan tíma.“

Calvin Burks var besti leikmaður Keflavíkur í öðrum leiknum gegn Þór.vísir/bára

Benedikt segir að það hafi ekki komið sér í opna spjöldu að Keflvíkingar skyldu tapa í Þorlákshöfn en tapið á heimavelli hafi komið á óvart.

„Mér var brugðið hvernig þeir töpuðu fyrsta heimaleiknum í þessu einvígi. Það er ástæðan fyrir því að þeir eru ekkert í góðum málum í úrslitunum, að hafa tapað heimaleiknum og það svona illa. En ég var alveg viðbúinn því að Þór myndi vinna í Höfninni,“ sagði Benedikt.

Sé ekkert taka þá úr jafnvægi

Þórsarar stigið mörg og stór skref fram á við á tímabilinu en eiga eftir að taka það stærsta, vinna Keflvíkinga í þriðja sinn til að tryggja sér Íslandstitilinn í fyrsta sinn í sögunni.

„Það er eitt að vinna leiki en annað að taka síðasta sigurinn sem þarf til að tryggja sér titilinn. Lið geta stundum stressast upp við það að hafa bikarinn í húsinu. En mér finnst þetta Þórsliðið vera svo gríðarlega einbeitt að ég sé ekkert taka þá úr jafnvægi. Þeir eru ofboðslega einbeittir og komu líka inn í einvígið með allt vinna að vinna en engu að tapa,“ sagði Benedikt.

Græni drekinn hefur látið vel í sér heyra í úrslitakeppninni og verður vafalítið í stuði í Blue-höllinni í kvöld.vísir/bára

„Á meðan er þessu öfugt farið hjá Keflavík. Það voru allir búnir að láta þá hafa titilinn og tala um að þeir væru langbestir. Eftir að þeir kláruðu Stjörnuna tók Lárus [Jónsson, þjálfari Þórs] það fram að þeir væru að fara að mæta langbesta liði landsins og svona. Keflavík hefur öllu að tapa en ekkert að vinna lengur og það er hugarástand sem er ekkert sérstaklega gott. Ég hef áhyggjur af Keflavík en neita að trúa því öðru en þeir vinni allavega einn leik,“ sagði Benedikt að lokum.

Í 37 ára sögu úrslitakeppninnar hefur það aðeins fjórum sinnum gerst að lið komi til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í einvígi og farið áfram en aldrei í úrslitum. Grindavík 2017 er eina liðið sem hefur náð að jafna í úrslitaeinvígi eftir að hafa lent 2-0 undir. Sagan er því ekki á bandi Keflvíkinga.

Leikur Keflavíkur og Þórs hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Domino's Körfuboltakvölds hefst klukkan 19:30 og leikurinn verður svo gerður upp í sama þætti.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Spilum bara körfubolta og útkljáum þetta á vellinum

Lárus Jónsson var rólegheitin uppmáluð eftir sigur Þórs frá Þorlákshöfn gegn Keflavík í kvöld. Sigurinn þýðir að Þórsarar eru 1-0 yfir í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.