Fótbolti

Messi jafnaði leikjametið þegar Argentína komst áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi jafnaði leikjamet argentínska landsliðsins í nótt og bætir það í næsta leik.
Lionel Messi jafnaði leikjamet argentínska landsliðsins í nótt og bætir það í næsta leik. getty/Alexandre Schneider

Lionel Messi jafnaði leikjamet argentínska landsliðsins þegar það vann Paragvæ, 1-0, í þriðja leik sínum í Suður-Ameríkukeppninni í nótt.

Messi lék sinn 147. landsleik í nótt og jafnaði þar með leikjamet Javiers Mascherano, fyrrverandi samherja síns hjá Barcelona. Messi er jafnframt langmarkahæsti leikmaður í sögu argentínska landsliðsins með 73 mörk.

Messi átti þátt í eina marki leiksins sem Papu Gómez, leikmaður Sevilla, skoraði á 10. mínútu.

Argentína er með sjö stig á toppi A-riðils Suður-Ameríkukeppninnar og er komið í átta liða úrslit. Argentínska liðið hefur bara skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjum sínum í keppninni en aðeins fengið á sig eitt.

Argentínumenn eru með tveimur stigum meira en Sílemenn sem gerðu 1-1 jafntefli við Úrúgvæa í gærkvöldi. Eduardo Vargas kom Síle yfir á 26. mínútu en Arturo Vidal jafnaði fyrir Úrúgvæ með sjálfsmarki á 66. mínútu.

Messi, sem er 34 ára, hefur ekki enn unnið stórmóti á sínum landsliðsferli ef frá er talið Ólympíugull í Peking 2008.

Suður-Ameríkukeppnin átti að fara fram í Kólumbíu og Argentínu en var færð til Brasilíu á síðustu stundu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.