Bílar

Renault Zoe - eins og félagsheimilið í Með allt á hreinu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Renault ZOE
Renault ZOE

Renault Zoe er fimm manna rafdrifinn borgarbíll. Hann er smekklega hannaður og staða ökumanns er afburðagóð. Drægnin er í ofanálag mjög fín. Zoe er meiri bíll en svo að hægt sé að kalla hann borgarsnattara, eins og flokkunin gefur til kynna. Hann er þéttur og góður og því vel hæfur til langkeyrslu.

Útlit

Bíllinn er sportlegur og hann yfirbyggingin er skemmtileg blanda af hvössum og mjúkum línum. Línurnar frá framljósum og að Renault merkinu eru mjög hvassar sem dæmi en á á móti er húddið mótað með fremur mjúkum línum.

Hann ber ekki með sér útlitslega að vera hár og hann er eins og félagsheimilið í með allt á hreinu, lítill að utan en stór að innan.

Húddið er mótað með mjúkum línum, en skarpar línur eru dregnar frá ljósum að merki.

Aksturseiginleikar

Staða ökumanns er framúrskarandi góð og fellur sérstaklega vel að öðrum einkennum bílsins, maður situr uppréttur og hátt uppi. Þetta er ekki sportbíll og því engin ástæða til að sitja of neðarlega og halla of mikið aftur á bak.

Bíllinn hefur fínt grip en aflið er þannig eins og oft vill verða með rafbíla að það er auðvelt að spóla á honum. Zoe er þó langt frá því að vera rafbíla verstur þegar að því kemur.

Notagildi

Þótt bíllinn sé vissulega eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu, þá er hann enginn flutningabíll. Það er bras að setja þrjá fullorðna aftur í.

Skottið er þó sennilega með besta nóti miðað við aðra rafbíla í þessum stærðarflokki.

Innra rými

Innra rýmið í Zoe er smekklegt og hlýlegur staður að vera á. Það einkennist helst af stórum sjá sem þjónustar afþreyingarkerfið og veitir allskonar upplýsingar.

Innra rýmið er smekklegt.

Drægni og hleðsla

Drægnin er frá 383km og upp í 395km. Ekkert í reynsluakstri blaðamanns gefur ástæðu til að efast um þá drægni.

Með 7,4kW heimahleðslustöð getur bíllinn hlaðið alveg frá 0 og upp í 100% á 9 klukkustundum og 25 mínútum. Með 22 kW heimahleðslustöð, sem er þriggja fasa, þá er hleðslutíminn frá 0-100% einungis 3 klukkustundur.

Verð og samantekt

Renault Zoe kostar frá 4.450.000kr og upp í 4.950.000 kr. Fyrir reynsluaksturinn verður ofanritaður að viðurkenna að honum þótti Zoe hátt verðlagður miðað við stærð bílsins. Nú hefur sú skoðun þó breyst og ef miðað ver við bílinn sem allflestir einstaklingar vilja miða við, Tesla Model 3, þá er vissulega smávægilegur stærðarmunur, hann er alls ekki eins mikill og kann að virðast í fyrstu. Vissulega er Zoe ekki með sömu drægni, ekki langt frá ódýrustu gerðum en þónokkuð ódýrari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×