Körfubolti

Fáum hreinan úrslitaleik milli Nets og Bucks í Brooklyn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Khris Middleton fagnar í leiknum í nótt en hann átti frábæran leik.
Khris Middleton fagnar í leiknum í nótt en hann átti frábæran leik. AP/Jeffrey Phelps

Milwaukee Bucks stóðst pressuna og tryggði sér oddaleik um sæti í úrslitum Austurdeildarinnar með sannfræandi fimmtán stiga sigri á Brooklyn Nets í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt, 104-89.

Khris Middleton skoraði 38 stig eða meira en hann hafði gert áður í einum leik í úrslitakeppni og Giannis Antetokounmpo bætti við 30 stigum og 17 fráköstum.

Leikmenn Milwaukee Bucks tóku frumkvæðið strax í upphafi leiks og var með forystuna allan leikinn.

Heimaliðin hafa unnið sex fyrstu leikina í einvíginu en úrslitaleikurinn fer fram í Brooklyn á laugardagskvöldið.

„Við vorum ekki að hugsa um neina pressu. Þetta er bara körfuboltaleikur, svo einfalt er það. Auðvitað máttum við ekki tapa þessum leik en um leið er þetta bara körfubolti og þú verður að njóta þess að spila. Það er gaman þegar allt er undir,“ sagði Khris Middleton sem var með 10 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta auk stiganna 38.

Jrue Holiday var síðan með 21 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta þannig að báðir áttu þeir mjög góðan leik.

Milwaukee Bucks hitti samt ekki vel fyrir utan eða aðeins 21 prósent úr þriggja stiga skotum (7 af 33) en bætti fyrir það með því að hlauða á Nets liðið og vinna þá 26-4 í hraðaupphlaupsstigum.

„Það særði okkur og þarna eru þeir mjög sterkir. Mér fannst við verða í vandræðum með að skila okkur til baka,“ sagði Steve Nash. þjálfari Brooklyn Nets.

Kevin Durant var með 32 stig og 11 fráköst og James Harden bætti við 16 stigum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×