Viðskipti erlent

Airbnb greiddi konu sjö milljónir dala vegna nauðgunar

Atli Ísleifsson skrifar
Sátt náðist milli Airbnb og konunnar tveimur árum eftir árásina sem átti sér stað í New York borg.
Sátt náðist milli Airbnb og konunnar tveimur árum eftir árásina sem átti sér stað í New York borg. Getty

Heimagistingaþjónustan Airbnb greiddi áströlskum ferðamanni sjö milljónir Bandaríkjadala vegna nauðgunar sem átti sér stað í Airbnb-íbúð í New York borg á gamlárskvöldi árið 2015.

Bloomberg segir frá málinu, en þar segir að konan og vinir hennar hafi sótt lykla að íbúðinni í nálægri verslun sama kvöld. Árásarmaðurinn er sagður hafa látið gera afrit af lyklunum að íbúðinni og falið sig inni á baðherberginu þegar vinkonurnar voru úti að fagna árámótum.

Þegar konan sneri aftur í íbúðina, nokkru eftir miðnætti, hafi maðurinn, hinn 24 ára Junior Lee, ráðist á konuna. Hann hefur verið ákærður fyrir nauðgun og er í gæsluvarðhaldi, en hann neitar sök í málinu.

BBC segir frá því að í kjölfar árásarinnar hafi starfsmenn Airbnb leitað til lögreglunnar í New York og boðið fram aðstoð sína og útvegað fórnarlambinu hótelherbergi. Þá hafi fyrirtækið sömuleiðis staðið straum af sálfræðitímum fyrir konuna auk þess að greiða fyrir flug móður konunnar frá Ástralíu til Bandaríkjanna eftir árásina.

Sátt náðist svo milli Airbnb og konunnar tveimur árum eftir árásina þar sem konunni var boðið sjö milljóna dala sáttagreiðslu, um 850 milljónir króna, gegn því að hún myndi ekki lögsækja fyrirtækið eða þá eiganda íbúðarinnar þar sem árásin átti sér stað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×