Ferðalög

Ferða­fé­lagið fjölgar ferðum fyrir gönguþyrsta Ís­lendinga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, ásamt dóttur sinni.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, ásamt dóttur sinni. Vísir/Aðsend

Útlit er fyrir að íslenska ferðasumarið muni endurtaka sig í ár. Mikill fjöldi fólks ætlar að ferðast innanlands og ganga um íslenska náttúru. Þetta segir framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og segir hann langt síðan jafn margir voru skráðir í félagið.

„Sumarið lítur mjög vel út, það er mikil þátttaka í ferðum og fjallaverkefnum hjá okkur. Það hefur fjölgað heilmikið í þátttöku í ferðum og verkefnum hjá okkur frá síðustu árum. Árið 2020, í þessum Covid-aðstæðum, þá fjölgaði þeim sem skráðu sig í félagið, komu í ferðir og voru að ferðast um landið,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands (FÍ), í samtali við Vísi.

„Við erum að sjá þennan hóp, hann er áfram að koma í ferðir og enn þá nýir félagar að skrá sig í félagið. Í dag erum við að nálgast ellefu þúsund greiðandi félagsmenn, sem hafa ekki verið fleiri í langan tíma.“

Hann segir mun meiri þátttöku í ferðum nú þó svo að hún hafi verið nokkuð góð í gegn um tíðina. Margar sumarleyfisferðir séu þegar fullbókaðar og aldrei hafi fleiri ferðum verið bætt við áætlun félagsins.

Ólíklegt er að margir Íslendingar ferðist til útlanda í sumar og er því líklegt að þeir skoði íslenska náttúru í staðin.Vísir/Vilhelm

„Til dæmis í fyrra bættum við í hátt í 30 prósent við ferðaáætlun félagsins og erum núna strax búin að bæta við 10 sumarleyfisferðum í áætlunina. Þannig að það er sérstaklega góð þátttaka í þessum lengri ferðum hjá okkur en líka aðeins í helgarferðum,“ segir Páll.

Hann segir fólk þó bíða með að bóka sig í dagsferðir þar til það sér veðurspár. Þá sé mikill áhugi hjá fjölskyldum um að ferðast saman um landið með félaginu.

„Við störfum mikið inni á fjallabaki og Hornströndum og höfum bætt við ferðum þar og líka á Austfjörðum á Víknaslóðum. Það er líka búið að bæta aðeins við ferðum á Lónsöræfi. Það er mjög ánægjulegt að við höfum bætt við 6-8 lengri ferðum í ferðafélagi barnanna. Það er mikill áhugi hjá fjölskyldum að fara saman í ferðalag um landið.“

Stærsti hópurinn fólk á sextugsaldri

Mest fjölgun nýrra félaga að sögn Páls er meðal fólks á aldrinum 30 til 50 ára.

„Þetta er líka hópur sem hefur verið að fara erlendis í ferðalög en er heima núna og ákveður þá að fara að ferðast um landið. Eins erum við með FÍ ung, Ferðafélag unga fólksins, þar er hópurinn alltaf að stækka. Það er hópur á aldrinum 20-25 ára,“ segir Páll.

Ferðamenn við Seljalandsfoss.Vísir/Vilhelm

Hann segir fjölmennasta hópinn þó enn fólk á sextugsaldri. Sá hópur sé mjög tryggur og stór hjá félaginu.

„Það er fólk sem er búið að koma sér upp húsnæði, börnin upp komin og fólk hefur orðið meiri tíma. Þá er mjög algengt að hjón á þessum aldri séu að ferðast mikið hjá okkur. En það er mjög ánægjulegt að allir aldurshópar eru að vaxa,“ segir Páll.

Erlendir ferðamenn bætast í hópinn

Heldurðu að þetta verði annað íslenskt ferðasumar?

„Já, það er allt útlit fyrir það hjá okkur. Það eru bæði þessar bókanir í ferðir en eins er mikið bókað í skála, þar eru bæði félagsmenn og Íslendingar heilmikið á ferðinni. Við erum að sjá síðustu 2 vikur að erlendum ferðamönnum er stöðugt að fjölga, sem ætla að gista í skálum. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á það að eftir mitt sumar verði mikið um að fólk sé á ferðinni um landið.“

Hann hvetur fólk til að undirbúa sig vel fyrir ferðalög sumarsins og ekki flýta sér um of.

„Almennt er fólk að búa sig mjög vel og gefa sér tíma í að skipuleggja ferðina, huga vel að undirbúningi og er með réttan og góðan búnað og þá ekki síst góðan fatnað og annan búnað sem á þarf að halda. Svona gott skipulag og góður undirbúningur eykur gæði ferðarinnar og upplifun fólks,“ segir Páll.

„Þannig að við hvetjum fólk til að gefa sér tíma í að skipuleggja og undirbúa, gefa sér tíma, njóta ferðarinnar og vera ekki að flýta sér um of svo að upplifunin verði sem allra best.“


Tengdar fréttir

Útlit fyrir líflegt ferðasumar

Um níu af hverjum tíu landsmönnum ætla í ferðalag innanlands í sumar þar sem gist er eina nótt eða lengur og ætlar tæplega helmingur að gista á hóteli. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar á vegum Ferðamálastofu.

Rúmur fjórðungur stefnir til út­landa á þessu ári

Ríflega fjórðungur landsmanna segir það öruggt eða líklegt að þeir muni ferðast til útlanda á þessu ári. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Forstöðumaður ferðaskrifstofu segir haustið líta vel út.

Göngu­æði grípur landann og met­að­sókn hjá Ferða­fé­lagi Ís­lands

Gríðarleg aðsókn hefur verið í gönguferðir á hálendi Íslands í sumar og má segja að gönguæði hafi gripið þjóðina. Aðsókn í göngur hefur stóraukist bæði hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og hjá Ferðafélagi Íslands, sem bæði sjá um að skipuleggja ferðir um náttúru landsins.








×