Handbolti

Hafa unnið leiki með 10,6 marka mun að meðaltali eftir að hafa marið Stjörnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir Guðmundsson og félagar í Haukum hafa verið óstöðvandi að undanförnu.
Geir Guðmundsson og félagar í Haukum hafa verið óstöðvandi að undanförnu. vísir/hulda margrét

Í fyrsta leik sínum í undanúrslitum úrslitakeppninnar í sögu félagsins mætir Stjarnan deildarmeisturum Hauka sem hafa unnið fjórtán leiki í röð.

Stjarnan komst í fyrsta sinn upp úr átta liða úrslitum úrslitakeppninnar þegar liðið vann Selfoss, 28-30, á föstudaginn. Selfyssingar unnu fyrri leikinn, 24-26, en Stjörnumenn fóru áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Haukar eru ekki árennilegir enda unnið fjórtán leiki í röð í deild og bikar, flesta með miklum mun. Í átta liða úrslitunum unnu Haukar Aftureldingu með samtals 24 marka mun.

Stjarnan er síðasta liðið sem lét Hauka virkilega hafa fyrir hlutunum en Hafnfirðingar unnu leik liðanna í Olís-deildinni 16. mars, 26-25.

Tandri Már Konráðsson og félagar í Stjörnunni fá verðugt verkefni gegn Haukum í kvöld.vísir/hulda margrét

Stjörnumenn veittu Haukum mikla keppni þrátt fyrir að vera án Tandra Más Konráðssonar, Ólafs Bjarka Ragnarssonar og Sverris Eyjólfssonar. Leó Snær Pétursson var markahæstur Stjörnumanna í leiknum með sjö mörk en Ólafur Ægir Ólafsson skoraði sex mörk fyrir Hauka.

Frá þessum leik hafa Haukar ekki unnið leik með minna en fjögurra marka mun. Það var gegn Val, 28-32.

Eftir að hafa marið Stjörnuna 16. mars hafa Haukar unnið ellefu leiki í röð með samtals 116 marka mun, eða með 10,6 marka mun að meðaltali.

Leikur Stjörnunnar og Hauka hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Seinni bylgjan verður í TM-höllinni í Garðabæ og fjallað ítarlega um leikinn sem og leik ÍBV og Vals sem hefst klukkan 18:00.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.