Viðskipti innlent

Bankarnir hækkuðu allir vexti hús­næðis­lána í dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Stóru bankarnir þrír hækkuðu sömuleiðis vexti sparnaðarreikninga.
Stóru bankarnir þrír hækkuðu sömuleiðis vexti sparnaðarreikninga. Vísir

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki hafa allir kynnt vaxtahækkanir á útlánum sínum í kjölfar nýlegrar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands. Hækka vextir vissra lána um 0,15 til 0,25 prósentustig og tóku breytingarnar gildi í dag.

Hjá Landsbankanum hækkuðu breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15 prósentustig í dag. Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum breytast ekki og vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, haldast sömuleiðis óbreyttir.

Vextir óverðtryggðra lána Landsbankans vegna bíla- og tækjafjármögnunar voru hækkaðir um 0,15 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 0,10 til 0,25 prósentustig.

Hækka um allt að 0,25 prósentustig

Hjá Arion banka hækka óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir um 0,10 prósentustig og verða 3,54%. Óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,15 prósentustig og verða 4,35%.

Verðtryggðir íbúðalánavextir eru óbreyttir en kjörvextir bílalána hækka um 0,10 prósentustig og verða 5,10%. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25 prósentustig.

Íslandsbanki hækkar breytilega vexti óverðtryggðra húsnæðislána um 0,25 prósentustig. Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til þriggja ára hækka um 0,20 prósentustig og til fimm ára hækka um 0,55 prósentustig.

Breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga hækka um 0,25 prósentustig. Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka sömuleiðis um 0,25 prósentustig.

Hækka líka vexti sparnaðarreikninga

Vextir á íbúðalánum hafa lækkað hratt síðustu fimmtán mánuði samhliða sögulega lágum stýrivöxtum. Nú er breyting þar á en Seðlabankinn tilkynnti þann 19. maí síðastliðinn að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig, einkum til að bregðast við mikilli verðbólgu sem hefur reynst þrálátari en gert var ráð fyrir. 

Litast verðbólgan meðal annars af hækkun húsnæðisverðs sem talin er að hluta tilkomin vegna lækkunar lánsvaxta og tilheyrandi þrýstings á fasteignamarkaðnum. 

Stýrivaxtahækkunin hefur sömuleiðis áhrif á innlánsvexti bankanna.

Landsbankinn hækkar vextir á óverðtryggðum sparireikningum um allt að 0,20 prósentustig. Vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka í flestum tilvikum um 0,25 prósentustig en vextir almennra veltureikninga haldast óbreyttir.

Arion banki og Íslandsbanki hækka vexti helstu sparnaðarreikninga um 0,10 til 0,25 prósentustig.


Tengdar fréttir

Seðla­bankinn hækkar stýri­vexti

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1 prósent.

Hundruð skráð sig vegna málsóknar gegn bönkunum

Nokkur hundruð manns hafa ákveðið að taka þátt í málarekstri gegn bönkum vegna lána sem Neytendasamtökin telja ólögmæt. Samtök fjármálafyrirtækja telja óvíst hvort fólkið hafi orðið fyrir nokkru tjóni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×