Viðskipti innlent

Fyrsta skráning sjávarútvegsfyrirtækis í 22 ár

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ekkert annað félag á markaði er með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins.
Ekkert annað félag á markaði er með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

Tímamót urðu í Kauphöllinni í morgun þegar viðskipti hófust með bréf í Síldarvinnslunni. Þetta er fyrsta skráning sjávarútvegsfyrirtækis á markaðítuttugu og tvö ár og fyrsta skráning í Kauphöllinni fráárinu 2019.

Bjöllu Kauphallarinnar var hringt af togaranum Berki við Neskaupstað þegar fyrstu viðskipti með bréf í Síldarvinnslunni hófust. Aðeins um hálftíma síðar höfðu farið fram viðskipti fyrir rúmar 300 milljónir króna en rúmlega tvöföld eftirspurn var eftir bréfum Síldarvinnslunnar í hlutfjárútboði fyrr í þessum mánuði.

„Áhugi á nýjum fjárfestingum og fjárfestingum almennt er talsvert mikill og sérstaklega áhugavert að fylgjast með hvað almenningur er að koma sterkt inn í útboðin og markaðinn almennt,” segir Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri hjá Kauphöll Íslands.

Samherji og Kjálkanes voru og verða áfram stærstu hluthafar félagsins, með tæplega 52 prósenta hlut samanlagt og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað verður áfram þriðji stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar, með 11 prósenta eignarhlut. Þá á Gildi lífeyrissjóður 9,9 prósenta hlut og Eignarhaldsfélagið Snæfugl 4,3 prósent. Hluthafarnir eru í heildina um 6500 talsins.

„Þetta er þá með þeim félögum sem er með flesta hluthafa í dag, held í topp þrjú eða fjögur,” segir Baldur.

Skráning Síldarvinnslunnar er að vissu leyti söguleg, því ekkert annað félag á markaði er með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er aðeins eitt annað sjávarútvegsfyrirtæki skráð í Kauphöllina. Þá eru tvö ár síðan síðasta skráning í Kauphöll átti sér stað.

„Þetta er nefnilega fyrsta skráning sjávarútvegsfyrirtækis hér frá árinu 1999. Þegar mest lét voru held ég nítján sjávarútvegsfyrirtæki, svo fækkaði þeim statt og stöðugt, þar til bara Brim var eftir. Þannig að í dag höfum við tvöfaldað fjöldann.”





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×